miðvikudagur, 19. desember 2007

A View to a Kill (1985)

Max Zorin er franskur örtölvukubba iðnrekandi. Hann hefur í hyggju að sökkva Silicon Valley í Bandaríkjunum til að koma í veg fyrir samkeppni á markaðnum. James Bond er hins vegar sendur til að stöðva hinn siðblinda Zorin, allt frá Effil turninum til Golden Gate brúarinnar. Upphaflega átti David Bowie að leika Max Zorin en annars finnst mér Christopher Walken stórgóður í hlutverkinu.


Þetta er sjöunda og síðasta Bond myndin sem Roger Moore lék í. Hann var orðin 58 ára og kanski á síðasta snúningi sem James Bond. Annars stendur hann sig frekar vel og lítur hreint ekki út fyrir að vera eldri en 50. Moore nær einhvern veginn alltaf að vera alvarlegur þótt hann virðist oftast vera hálfkærulaus. Hann er ekki jafn kaldur og mun viðkunnanlegri en flestir aðrir sem hafa leikið Bond. Hann gefur James Bond líka húmor. Persónulega hef ég meira gaman af hinum gamansama Bond heldur en hinum ískalda harðnagla sem birtist í nýjustu myndinni Casino Royale þar sem Daniel Craig fer með hlutverk Bond.


Margir kannast eflaust við titillag myndarinnar sem flutt er af Duran Duran.

sunnudagur, 9. desember 2007

The Time Machine (2002)

Myndin er endurgerð af The Time Machine frá árinu 1960 og byggir á samnefndri skáldsögu H.G.Wells frá 1895. Sagan fjallar um uppfinningamanninn Alexander sem býr í New York rétt fyrir aldamótin 1900. Eftir að unnusta hans, Emma, er myrt leggur hann allan sinn metnað í að búa til tímavél sem honum tekst að lokum. Hann ferðast fyrst aftur í tímann í von um að geta breytt örlögunum en kemst fljótlega að því að það getur hann ekki. Hann ferðast því fram í tímann í von um að fá svör við því hvort það sé mögulegt að breyta fortíðinni.


Þó ég hafi ekki séð nema smá brot af upprunalegu myndinni frá 1960 þá held ég að þetta sé bara með betri endurgerðum sem ég hef séð. Hún er a.m.k vönduð og meira “sannfærandi” (að ég tel) en upprunalega myndin. Atriðið þegar Alexander er að ferðast 800.000 ár fram í tímann finnst mér vera mjög vel gert. Hvernig jörðin gengur í gegnum súrt og sætt í aldana rás. Þær hugmyndir um framtíðina, þróun mannsins, áhrif hans á jörðinni og margt fleira sem koma fram í myndinni (og upphaflega í skáldsögunni) eru margar hverjar athyglisverðar þó þær séu að mestu leyti tilbúningur Þrátt fyrir að vera vísindaskáldskapur er sagan að mörgu leyti sannfærandi.

laugardagur, 8. desember 2007

Taggart: A Taste of Money (2005)


Þótt Taggart sjálfur sé löngu dauður eru þættirnir enn sprelllifandi. Í þessum þætti finnst veitingahúsa gagnrýnandi myrtur á heimili sínu og er aðkoman ansi skrautleg (ég segi ekki meir). Í fyrstu beinist grunur að innbrotsþjófi sem sést flýja af vettvangi en fljótlega kemur í ljós að um tvo aðskilda glæpi er að ræða, annars vegar morð og hins vegar innbrot. Málið er því mun flóknara en það leit út í fyrstu. Það verður að segjast að þetta var bara nokkuð góður þáttur, frekar spennandi og kom nokkuð á óvart og var í það minnsta ekki fyrirsjáanlegur. Góð kvöldafþreying.

Eitt sem var dálítið athyglisvert var það þegar löggurnar í Glasgow þurftu að fara til Edinborgar. Ég tók eftir því að þeir voru ekkert rosalega hrifnir af Edinborg. Nú veit ég ekki hvort það er einhver áberandi rígur milli Glasgow og Edinborgar í raunveruleikanum, en það kæmi mér svosem ekkert á óvart. Það er nú talsvert um þetta bara hér á Íslandi milli bæjarfélaga að ég best veit.

miðvikudagur, 5. desember 2007

Karlakórinn Hekla (1992)


Ein af mínum uppáhalds íslensku myndum. Hún er bráðskemmtileg og alltaf sígild. Karlakórinn Hekla úr Hveragerði fer í kórferðalag til Svíþjóðar og Þýskalands til að verða að bón hins þýskættaða kórfélaga (Max Werner) áður en hann lést. Í ferðinni lendir kórinn heldur betur í ævintýrum. Kórstjóranum er meðal annars rænt af barnsmóður sinni og rúsínan í pysluendanum er svo þegar “Werner” birtist upp úr þurru í fæðingarbæ sínum í Þýskalandi.


Garðar Cortes fer með hlutverk Werner og stendur sig ágætlega, ekki síður sem leikari þó hann sé vissulega söngvari. Ragnhildur Gísladótti leikur Möggu undirleikara, Egill Ólafsson leikur Gunnar kórstjóra og ýmsir aðrir þjóðþektir leikarar koma við sögu. Ég tók líka eftir því núna sem ég hef ekki tekið eftir áður (ég hef séð myndina nokkrum sinnum en reyndar eru mörg ár síðan ég sá hana seinast) en það er það að Guðnýu leikstjóra bregður fyrir þar sem hún vindur sér upp að Möggu (Röggu Gísla) rétt undir lok myndarinnar. Ég fór líka aðeins að velta fyrir mér atriðinu þegar Gunnar kórstjóri (Egill Ólafsson) stekkur á mótórhjóli um borð í skipið til að missa ekki af því. Ég veit ekki hvaða brellum var beitt en atriðið kemur í það minnsta vel út.

mánudagur, 3. desember 2007

Live and Let die (1973)


Það er ekki að ástæðulausu að þetta er mín uppáhalds Bond mynd. Hún hefst með látum, þrír njósnarar myrtir á einu bretti. Bond er sendur til að rannsaka hvernig morðin tengjast Hann kynnist þá bæði Mr. Big og Kananga sem tengjast eiturlygjasmygli (reyndar kemur í ljós síðar í myndinni að þeir eru einn og sami maðurinn). Eftir frekar langa og flókna atburðarás stendur að sjálfsögðu okkar maður uppi sem sigurvegari. Þó margar Bond myndir séu ágætar þá er þessi frumlegri og fjölbreytilegri en flestar hinna. Roger Moore finnst mér líka passa vel sem Bond. Titillagið er heldur ekki af verri endanum, samið af Paul og Lindu McCartney. Frumleiki og fjölbreytni finnst mér vega mikið hvað kvikmyndagerð varðar sem og margt annað og það er ef til vill það sem veldur því að þessi mynd er í jafn miklum metum hjá mér og raun er.

sunnudagur, 2. desember 2007

Big Fish (2003)


Í þrjú ár hefur Will ekki talað við föður sinn Edward Bloom vegna þess að faðir hans segir aldrei sannleikan. Nú er hins vegar svo komið að Edward liggur á dánarbeðinu. Will snýr þá heim frá Frakklandi ásamt konu sinni til þess að dveljast hjá foreldrum sínum. Á meðan dvölinni stendur reynir Will að komast að hinu sanna um líf föður síns sem fram að þessu hefur aðallega sagt Will skáldaðar sögur af sjálfum sér. Skömmu áður en Edward deyr lærir Will að meta sögurnar af föður sínum og uppgötvar að sannleikurinn um föður hans sé sá að hann hafi fyrst og fresmst verið góður sögumaður.
Það felst mun meiri skemmtun og gleði í skáldsögunum en hinum blákalda veruleika. Það gerir ekkert til þótt sannleikurinn sé aðeins skreyttur því það kætir okkur bara. Athyglisverð mynd sem einkennist af gleði og jákvæðni. Minnir dálítið á Forrest Gump en þó í dálítið annari útsetningu. Frumleg mynd sem Tim Burton setur fram á skemmtilegan og ævintýralegan hátt.

föstudagur, 30. nóvember 2007

"Lewis" Whom the Gods Would Destroy (2007)


Maður finnst látin við bakka Thames í Oxford. Við rannsókn á morðinu kemur í ljós að maður þessi var nemandi í Oxford háskóla 20 árum áður. Þar stofnaði hann ásamt félögum sínum félag sem þeir kölluðu "Sons of the Twice Born". Í félagi þessu drukku þeir félagar og neyttu eiturlyfja en nafn félagsins vísar til goðsagnar um fæðingu vínguðsins Dionysusar í grískri goðafræði. Titill myndarinnar er hins vegar sóttur í tilvitnun Evripídesar (sem var eitt helsta harmleikjaskáld forn-Grikkja) "Whom the gods would destroy, they first make mad". Þegar Lewis og Hathaway (lögreglumenn) fara að rannsaka þetta félag betur komast þeir að því að ekki er allt með felldu. Frekar týpísk bresk sakamálamynd hér á ferð en þó ágæt tengingin við grísku goðafræðina og Nietzsche.

The Lord of the Rings: The Two Towers (2002)


Rúmlega þrír tímar fyrir framan skjáin en klárlega þess virði. Og þó þetta sé ekki eitthvað sem maður gerir á hverjum degi þá hef ég nú séð þessa mynd þó nokkrum sinnum. Fyrirfram hafði ég eiginlega ekki trú á að Peter Jackson væri rétti maðurinn til að leikstýra myndunum (raunar þekkti ég ekkert til Peter Jackson áður og var því alls ekki hæfur til þess að dæma um slíkt). Ég vanmat Peter Jackson augljóslega því að ég held að það sé engin spurning að maðurinn lagði gífurlegan metnað í þessar þrjár myndir. Útkoman finnst mér vera mjög svo ásættanleg. Auðvitað eru myndirnar ekki í fullu samræmi við bækurnar, ýmsu sleppt hér og þar og þó eru allar þrjár myndirnar gífurlega langar og jafnvel of langar ef út í það er farið. Ég held að það hefði samt ekki verið sniðugra að skipta sögunni niður í fleiri og styttri myndir því að bækurnar eru jú þrjár og af einhverri ástæðu finnst mér að myndirnar eigi líka að vera þrjár.


Í þetta skipti velti ég sérstaklega fyrir mér landslaginu og hvort það hefði mögulega verið hægt að taka myndina upp á Íslandi eins og hugmyndir voru uppi um (að ég best veit). Ef til vill hefði það verið möguleiki. Landslagið hér er ef til vill ekki ósvipað því sem fyrirfinnst á Nýja-Sjálandi (þar sem myndin var tekin upp). Hvað sem því líður er ég mjög sáttur með landslagið eins og það er í myndinni.

fimmtudagur, 29. nóvember 2007

Shanghai Noon (2000)


Ég hef alltaf haft nokkrar mætur á Jackie Chan, ef til vill vegna þess að hann sker sig að miklu leyti úr hvað varðar leik og húmor. Í myndinni, sem er einhvers konar kúrekagrínmynd leikur Jackie Chan kínverska lífvörðinn Chon Wang sem fer til Bandaríkjana til þess að bjarga prinsessu Pei Pei sem hefur verið rænt. Þar kynnist hann Roy O'Bannon (Owen Wilson) og þeir lenda í ýmsum ævintýrum. Þeir “félagar” Roy og Chon eru mjög ólíkar týpur. Roy er glaumgosi, góður með sig en afburða léleg skytta. Chon er hins vegar rólegri, örlítið klaufskur, kung fu meistari og reynir að hafa vit fyrir Roy sem er stundum frekar vitlaus. Myndin er sambland af flottum bardagaatriðum (eins og Jackie Cahne einum er lagið) og ágætum húmor. Í myndinni má finna vísanir í aðrar kvikmyndir. T.d. er nafn Chon Wang mistekið sem John Wayne þegar hann kemur til Bandaríkjanna en flestir ættu að vita hver hinn raunverulegi John Wayne var. Nokkuð góð afþreying hér á ferð.

miðvikudagur, 28. nóvember 2007

Mýrin (2006)


Ég hef hvorki lesið bókina né sá ég myndina í bíó eins og margir Íslendingar gerðu víst. Ef til vill er ekki verra að hafa lesið bókina áður en mér skilst að myndin sé í góðu samræmi við bókina. Að minsta kosti þótti mér myndin vel gerð í flesta staði. Þó ég hafi ekki lesið bókina hef ég lesið aðrar bækur eftir Arnald Indriðason og kannast því við Erlend og félaga. Ólíkt því sem oft vill verða þegar bækur eru kvikmyndaðar fannst mér persónurnar í myndinni koma vel saman við þær hugmyndir sem ég hafði af persónum eftir að hafa lesið bækur Arnaldar. Mér fannst Ingvar E. Sigurðsson passa vel í hlutverk Erlendar og eins og vænta mátti skilaði hann því hlutverki vel.

Ýmsir sem ég hef rætt við (reyndar aðallega kvenfólk) hafa sérstaklega minnst á það hvað þeim fannst atriði, þegar Erlendur er að borða sviðakjamma, vera ógeðslegt. Mér fannst fátt ógeðslegt við það, ekki síst í ljósi þess að nóg er af annars konar viðbjóði í myndinni. Ég held að ég geti sagt án nokkurs vafa að Baltasar Kormáki hafi tekist að koma sögu Arnaldar til skila á vandaðan hátt. Eftir að hafa séð myndina held ég að það sé svo ekki úr vegi að lesa bókina.

Eitt svona að lokum. Af hverju kemur Lalli Johns fyrir í myndinni? Ég efa stórlega að hans sé getið í bókinni. Þetta eyðilagði alls ekki myndina fyrir mér eða neitt svoleiðis en ég sá bara ekki tilganginn. Var hann kannski bara fyrir tilviljun á þessum stað þegar atriðið var tekið upp. Erlendur heilsar honum samt sérstaklega sem mér finnst dálítið athyglisvert.

þriðjudagur, 27. nóvember 2007

Smultronstället (1957)

Annað meistaraverk frá Bergman. Eftir að hafa séð brot úr myndinni Smultronstället (Wild Strawberries) í fyrirlestrinum um Bergman var ég staðráðinn í að sjá hana við tækifæri. Ég let því verða að því að taka hana á leigu.


Isak Borg hefur verið læknir í 50 ár. Hann ferðast frá Stokkhólmi til Lundar til að taka á móti heiðursverðlaunum. Á leiðinni rifjast upp fyrir honum ýmsar æskuminningar og hann áttar sig á því að líf hans einkennist af kulda og einmannaleika en því vill hann gjarnan breyta. Sagan er einföld og í senn sorgleg og falleg. Viss samsvörun er milli æskuminninga Isaks og raunveruleikans. Konan sem hann elskaði giftis bróður hans. Á leiðinni verða svo 3 ungmenni samferða Isak til Lundar, ein stúlka og tveir piltar sem hún þarf að velja á milli, líkt og konan sem valdi bróður Isaks fram yfir hann. Sagan er full af táknum og er sannkallað listaverk (kvikmyndin nýtur sín sem listform). Ég velti lengi fyrir mér hvaða hlutverki jarðaberin gegndu í myndinni og komst að því þegar ég fletti því upp á netinu að í Svíþjóð tákna vilt jarðarber endurfæðingu. Þetta mætti heimfæra upp á myndina með því að segja að Isak endurmeti líf sitt á leiðinni til Lundar. Ekki má gleyma að minnast á snilldarleik Victors Sjöström í hlutverki Isaks. Victor var sjálfur leikstjóri á þögla tímabilinu jafnframt því að leika. Wild Strawberries var síðasta myndin sem hann lék í, þremur árum áður en hann lést. Hann hefur stundum verið nefndur „faðir sænskrar kvikmyndagerðar.“

mánudagur, 26. nóvember 2007

The Man Who Knew Too Much (1956)


Myndin var á dagskrá sjónvarpsins þetta sunnudagskvöld. Hún fjallar um Amerísku hjónin Dr. og Mrs. McKenna sem fara með syni sínum í frí til Marokkó. Fríið endar hins vegar í martröð eftir að þau hjónin blandast inn í samsæri gegn hátt settum ráðamanni í London. Syni þeirra er rænt og þau fara til London í von um að finna son sinn og koma í veg fyrir morð. Atriði eitt sem gerist í Royal Albert Hall er frekar langt og dramatískt. Raunar er smá hluti úr því atriði sýndur í blábyrjun myndarinnar og sérstaklega tekið fram að það muni skipta miklu máli í myndinni. Þegar líður á myndina uppgötvar áhorfandinn hægt og rólega hvaða merkingu atriðið hefur og er því vel undirbúinn undir það sem koma skal. Þessi einfalda og augljósa leið til að koma hlutunum til skila er dæmigerð fyrir Hitchcock, eins og flestir ættu að vita eftir að hafa grandskoðað Notorious. Svo má nefna að báðar þessar myndir (þ.e. The Man Who Knew to Much og Notorious) enda svipað. Í Notorious var atriði þar sem Devlin fylgir Aliciu niður tröppunar til að "frelsa" hana frá Alexander. Þar er Alexander í þröngri aðstöðu. Þessi mynd endar hins vegar þannig að Mr. Drayton ógnar McKenna feðgunum með byssu og þvingar þá niður tröppunar. Í báðum myndunum eru það "skúrkarnir" sem eru í raun í vondri aðstöðu (og hafa ef til vill báðir samviskubit). Báðar myndinar enda illa fyrir skúrkana. Í Notorious endaði Alexander á að sitja upp með "forvitna félaga" en í þessari mynd deyr einfaldlega Mr. Drayton eftir að Dr. McKenna bregður fyrir hann fæti og hann verður fyrir eigin skoti.

laugardagur, 24. nóvember 2007

The Blue Yonder (1985)


11 ára drengur ferðast aftur í tímann til ársins 1927 til að stöðva afa sinn í að fljúga yfir Atlantshafið. Eftir að hafa dvalist þó nokkuð með afa sínum og lært sitthvað um flugvélar sannfærir drengurinn afa sinn um að hann sé sonarsonur hans. Hann reynir að koma í veg fyrir að afinn fljúgi yfir Atlantshafið því að hann veit að vélin mun farast á leiðinni. Afann hefur svo lengi dreymt um að verða fyrstur manna til a fljúga yfir Atlantshafið að hann lætur verða að því þrátt fyrir aðvaranir stráksins. Strákurinn fer vonsvikinn aftur til framtíðar en honum til mikillar gleði kemst hann að því að afi hans hafi orðið annar yfir Atlantshafið á eftir Lindbergh. Það sem mér þótti skrítnast við myndina var endirinn. Eftir að afinn er floginn af stað, flýtir drengurinn sér aftur til framtíðar og fann þar minnisvarða um flug afans. Svo endaði myndin. Mér fannst eins og það vantaði eitthvað. Hann hitti ekki foreldra sína eða afann (ef hann átti að vera enn á lífi).

Little Miss Sunshine (2006)


Furðuleg mynd um furðulega fjöslkyldu sem ferðast langa leið til Kaliforníu (á volkswagen rúgbrauði) svo að dóttirin geti tekið þátt í fegurðarsamkeppni. Í raun gerist ekki margt í myndinni. Samt sem áður, á einhvern óskiljanlegan hátt, fannst mér þetta bara þokkalegasta mynd. Kannski voru það hinar grátbroslegu persónur sem gerðu myndina einmitt svona áhugaverða. Sagan er einföld og hversdagsleg en persónurnar skipta mestu máli. Dóttirin, Olive Hoover, er 7 ára og þráir að taka þátt í fegurðarsamkeppni, bróðir hennar, Dwayne, hefur verið í þagnarbindindi í 9 mánuði og stefnir að því að verða flugmaður. Móðirin, Sheryl tekur að sér bróðir sinn, Frank, sem er hommi og hefur nýlega reynt að frema sjálfsmorð vegna ástarsorgar. Svo er það afinn, Edwin, sem var rekinn af elliheimilinu og er háður heroini. Samband persóna, sem þekkjast misvel þegar ferðalagið hefst, er stirt til að byrja með en þegar líður á myndina tekst fjölskyldunni að mynda einhvern furðulegan samhljóm. Myndin er hin ágætasta skemmtun.

þriðjudagur, 20. nóvember 2007

Ocean’s Thirteen (2007)



Danny Ocean og félagar ákveða að hefna gamla læriföðurins Rueben sem liggur á dánarbeðinu. Rueben hefur verið svikinn af hótel- og spilavítaeigandanum Bank. Í þetta skiptið hyggjast Danny og félagar ekki græða persónulega heldur ætla þeir að koma því í kring að spilavítið tapi. Með því að falsa spilaútbúnað, svo sem teninga, geta þeir hagrætt úrslitum í spilavítinu. Myndin er ekki ósvipuð fyrstu myndinni sem fjallaði um rán í spilavítum í Las Vegas nema hvað að í þessari mynd er ekki um beint rán að ræða (nokkuð sniðugt). Myndin er þó ekki laus við galla. T.d. fannst mér einstaka sinnum vanta aðeins upp á samhengið. Annars var þetta ágætis skemmtun.

mánudagur, 19. nóvember 2007

Det Sjunde Insiglet (1957)



Þetta meistarverka Bergman fjallar um riddarann Antonius Block sem snýr heim til Svíþjóðar ásamt förunauti sínum Jöns eftir krossför á miðöldum. Í Svíþjóð geysar þá Svarti-Dauði og ríkir hræðsla og ótti þar í landi. Auk þess er Dauðinn kominn til að sækja Antonius. Hann biður hins vegar Dauðan um að tefla við sig fyrst og vinnur þannig tíma. Við kynnumst fleiri persónum sem eru einkennandi fyrir samfélagið á miðöldum. Skákin er einhverskonar táknmynd fyrir lífið. Á góðum dögum þegar Antonius er bjartsýnn gengur honum vel í skákinni við Dauðan en þegar hann hefur misst alla von, vegna þeirra hörmunga sem ganga yfir, gengur skákin illa. Myndin er í svarthvítu og samspil birtu og skugga gefur myndinni aukna dýpt.

Some Like it Hot (1959)

Ég sá mér ekki fært að mæta á sýninguna á mánudeginum (12. nóvember að mig minnir) vegna prófs sem ég var að fara í daginn eftir. Auk þess hef ég séð myndina áður þó svo að liðin sé nokkur tími síðan. Ég ætla samt að reyna að skrifa eitthvað um hana.



Myndin fjallar semsagt um Jerry og Joe sem eru jazz tónlistarmenn í Chicago en neyðast til að flýja undan mafíunni. Þeir dulbúast sem klæðskiptingar (Josephine og Daphne) til að komast inn í stelpnaband og fara með bandinu til Flórída. Á leiðinni verða þeir báðir hrifnir af Sugar Kane (Marilyn Monroe) sem syngur og leikur á ukulele í bandinu. Þegar til Flórída er komið bregður Joe sér í annað hlutverk til að heilla Sugar Kane og þykist vera milljónamæringur. Á meðan verður raunverulegur miljónamæringur, Osgood Fielding, hrifinn af Daphne (Jerry). Þegar Osgood býður Jerry (í dulargervi Daphne) út í snekkjuna sína eitt kvöldið fær Joe Jerry til að halda Osgodd í landi svo hann geti sjálfur boðið Sugar Kane í snekkjuna sína. Leikur Tony Curtis (sem Joe/Josephine) og Jack Lemmon (sem Jerry/Daphne) var fínn, ekki síður kvenhlutverkin. Þó myndin sé gamanmynd má alltaf finna smá vott af alvöru. Mér fannst myndin þrælgóð en þó er ég ekki endilega sammála því að hún sé besta grín mynd allra tíma eins og sumir vilja meina.

þriðjudagur, 23. október 2007

8 1/2 (1963)


Þessi færsla verður ef til vill jafnruglingsleg og myndin.
Þetta var frekar löng og stórfurðuleg mynd. Vissulega voru þarna ansi skrautleg og vel gerð atriði en ég áttaði mig ekki almennilega á samhenginu. Þetta snérist eitthvað um konurnar í lífi aðalpersónunnar og sambandið við eiginkonuna. Aðalpersónan virtist eiga mjög annríkt. Önnum kafinn leikstjóri. Býður svo konunni sinni á tökstað því hann þykist sakna hennar. Konan heldur að hann haldi framhjá sér og hann sé umvafinn kvenmönnum en í raun virðist hann alltaf hrinda kvenfólki frá sér, ef til vill eitthvað tengt æsku hans sem birtist oft inn á milli. Annars átti ég erfitt á að skilja söguþráðin ef hann var þá einhver.
Lokaatriðið þegar allir dansa í burtu hefur ef til vill eitthvað táknrænt gildi en ég bara gat ekki áttað mig á því. Kannski var ég bara of þreyttur þegar ég sá myndina.

fimmtudagur, 11. október 2007

Top Secret! (1984)



Þessi óborganlega gamanmynd með Val Kilmer í aðalhlutverki fjallar um rokkstjörnuna Nick Rivers sem ferðast til Austur-Þýskalands sem fulltrúi Bandaríkjanna á menningarhátíð þar í landi. Stjórnvöld hafa hins vegar ýmislegt óhreint í pokahorninu og kæra sig ekkert um að utanaðkomendur séu að snuðra í innanlandsmálum (sem þó varða öryggi allra jarðarbúa) Þessi mynd deilir óspart á ástandið í Þýskalandi á tímum seinni heimstyrjaladarinnar og gerir hiklaust gín að flestu sem hægt er að gera grín að. Þessi mynd er laus við flesta skynsemi en öllu gríni fylgir smá alvara sem lýsir sér í kaldhæðninni sem felst í því að gera grín að Þýskalandi nasismans. Fyrir utan hið hefðbundna grín í myndinni er auk þess alveg sérstakur húmor í gangi sem felst í því að athyglin beinist oft frá söguþræðinum að einhverju fáranlegu sem á sér stað í bakgrunninum, aðeins til að vekju furðu áhorfenda og gera myndina kjánalega fyndna. Dæmi um þetta er þegar úr sem ein persónan lítur á er orðið risavaxið í næsta skoti. Svipað atvik á sér stað með ofvaxinn síma. Einnig er heilt atriði í bókabúð sem gerist afturábak. Þar talar sænskur eigandi búðarinnar afturábak við aðalpersónurnar til að koma leynilegum upplýsingum til skila. Semsagt stútfull mynd sem hæðist jafnt að Elvis Presley og Nasistum.

miðvikudagur, 10. október 2007

Stuttmyndamaraþonið

Jæja, hér er loksins smá umfjöllun um hið löngu liðna stuttmyndamaraþon. Hópurinn samanstóð af mér (Gísla), Bjarka, Daníeli, Hlyni og Roberti.

Við vorum kannski full öruggir með okkur, héldum að við færum létt með eitt lítið maraþon. Upphaflega kom Bjarki með ágætis hugmynd og eftir á að hyggja voru líklegast stærstu mistök okkar að hafna þeirri hugmynd. Að lokum var ný hugmynd fengin (með hjálp Andra Gunnars Haukssonar (5-Y)) og handrit samið á síðustu stundu. Að lokum gat rúmlega 5 tíma vinna af sér u.þ.b. 4 mínútna stuttmynd. Eins og glöggir nemendur muna eflaust (þ.e. þeir sem sáu myndina í tímanum) fjallar hún um tvo stráka sem læsast inn í kjallara í leit að leikjatölvu sem endar svo með ósköpum. Þetta var kannski ekki frumlegasta hugmynd sem fram hefur komið en þrátt fyrir þær erfiðu aðstæður sem við lentum í (m.a. heilmikið vesen í tenglsum við klippingu myndarinnar í vélinni) gátu vonandi flestir skemmt sér yfir áhorfinu. Eftirfarandi málshættir eru mér ofarlega í huga þegar ég hugsa um gerð myndarinnar: „Maður uppsker eins og maður sáir“ og „Æfingin skapar meistarann“. Stuttmyndamaraþonið var góð æfing og allir ættu að hafa lært eitthvað nýtt og jafnvel talsvert ef þetta var þeirra fyrsta stuttmynd.

The Cabinet of Dr. Caligari (1920)



Myndin fjallar um Dr. Caligari sem heldur sýningar þar sem hann sýnir svefngengilinn Cesare sem getur spáð fyrir um framtíðina. Francis fer með félaga sínum Alan á eina sýningu Caligari þar sem Alan freistast til að spyrja Cesare hversu mikið hann eigi eftir ólifað. Cesare spáir því að Alan eigi einungis eftir að lifa fram að kvöldi sama dags. Cesare reynist því miður sannspár þar sem Alan er myrtur þetta sama kvöld. Francis er staðráðin í að komast að því hver myrti vin hans og vitaskuld beinist athyglin að Dr. Caligari og svefngengli hans. Hins vegar er ekki allt sem sýnist og atburðarásin sem fylgir í kjölfarið hefur varanleg áhrif á líf Francis. Myndin er líklegast sú þekktasta sem kennd er við hinn svokallaða expressionisma en sú stefna var vinsæl í þýskri kvikmyndagerð á þögla tímabilinu. Öll sviðmyndin er teiknuð og allt frekar abstrakt. Ljós og skuggar gefa myndinni aukið tilfinningalegt gildi auk þess sem leikurinn er mjög ýktur. Sumir vilja meina að expressionisminn eigi upptök sín í málverkinu Ópinu eftir Edvard Munch en hvort sem það er satt eður ei þá er þetta athyglisverð stefna sem er ekki síst það sem gerir Dr. Caligari að jafnmerkilegri mynd og raun ber vitni þó svo að sagan sé mjög góð með spennandi söguþræði og opnum endi sem skilur áhorfandann eftir með ótal ósvaraðar spurningar í kollinum.

mánudagur, 8. október 2007

RIFF: Ávallt, aldrei og hvar sem er


Alveg hreint furðulegt mynd. Þegar ég las um myndina í bæklingnum hugsaði ég með mér hvort það gæti virkilega verið að sögusviðið væri bara einn bíll, eða því sem næst. Ég var forvitinn að sjá hvort þetta væri virkilega svo súr pæling, þrír menn læstir inn í bíl bíðandi eftir hjálp. Og viti menn, sú var raunin (fyrir utan blábyrjun myndarinnar). Ég sá fram á langdregna mynd, e.t.v. einhverja steypumynd uppfulla af súrum bröndurum og þess háttar. Því miður kom annað á daginn. Myndin átti eflaust að vera fyndinn en þó svo að sumum hafi eflaust fundist hún fyndin á köflum (kannski vegna þess hversu hræðilega slöpp hún var) var fátt hlægilegt við þessa mynd. Þessir þrír furðufuglar sem þarna voru saman komnir voru vægast sagt leiðinlegar persónur. Leikurinn var ekki upp á marga fiska en þó hátíð á miðað við söguna. Þetta var í alla staði misheppnuð tilraun til að gera áhugaverða mynd sem gerist öll á sama stað. Fyrir utan að vera mjög langdregin (vegna þess að aðstæður voru alltaf þær sömu) voru samræður mannanna þriggja í bílnum flestar mjög óáhugaverðar. Ef til vill var það ætlunin að gera einhæfa mynd sem þar að auki innihélt ömurlegar samræður ömurlegra manna. Það tókst allaveganna hvort sem það var hugmyndin eður ei. Þegar ég var við það að sofna gerðist þó dálítið athyglisvert (e.t.v. það eina jákvæða við þessa mynd). Ungur drengur finnur mennina þrjá og verður atburðarásin ögn frumlegri eftir það. Þessi drengur er þó ekki sérlega hjálplegur mönnunum þremur heldur þvert á móti gerir þeim lífið leitt. Þetta fannst mér nú frekar ódýr lausn til að skapa spennu í myndinni sem að öðru leiti var laus við flesta spennu. Ég er farinn að hallast að þeirri skoðun að markmið myndarinnar hafi einmitt átt að láta áhorfandanum líða eins og hann væri fastur með mönnunum þremur. Reyndar tókst það að ýmsu leiti. Mér leiddist t.d. virkilega mestan tímann líkt og mönnunum í bílnum. Hins vegar fannst mér allt of lítið af skotum innan úr bílnum sjálfum miðað við eðli myndarinnar. Mér leið því aldrei eins og ég væri hluti af myndinni. Hitt hefði verið ögn áhrifaríkara ef leikstjóranum hefði tekist að láta áhorfendum líða eins og hann væri sjálfur fastur inni í bíl í margar sólarhringa.

sunnudagur, 7. október 2007

Heima

Heimildamyndin Heima fjallar um tónleikaferðalag Sigur Rósar um Ísland 2006. Í myndinni er hljómsveitinni fylgt hringinn í kringum landið með viðkomu á afskekktum stöðum þar sem hljómsveitin lék fyrir áhorfendur sem oftar en ekki voru í færri kantinum. Auk þess sem tónleikum sveitarinnar er fylgt eftir fær náttúra Íslands að njóta sín í myndinni og oft er tónlistin látin túlka ýmis náttúrufyrirbrigði. Einnig eru áhorfendur myndaðir í bak og fyrir, ekki síst börn að leik sem mér finnst gefa myndinni einhvers konar einlægni-blæ. Hljóð og myndataka gegna lykilhlutverki í myndinni og sameinast og mynda eina heild. Vel gerð mynd um einstaka hljósveit.

miðvikudagur, 3. október 2007

RIFF: Grand Hotel

Ég lét loks verða að því að sjá mynd á kvimyndahátíð. Þetta var myndin Grandhotel eftir tékkneska leikstjórann David Ondricek. Myndin var sýnd í Regnboganum og var fullt út úr dyrum. Það vildi svo heppilega til að Ondricek og Klára Issová (sem fer með aðal kvenhlutverkið) voru bæði viðstödd sýningu myndarinnar og svöruðu spurningum áhorfanda að henni lokinni. Sögusviðið er gamalt fjallahótel ofan við smábæ í Tékklandi. Þar vinnur Fleischman nokkur sem vörður. Hann er mikill áhugamaður um veðurfræði, fylgist sífellt með veðrinu og skráir inn ýmsar upplýsingar á þar til gerð kort. Hann er líka að sauma sér loftbelg í afskekktum hluta hótelsins, en hann dreymir um að fljúga í burtu til að flýja eigin tilvist. Veðrið á þessum slóðum er ekki ósvipað því sem þekkist hér á Íslandi og gegnir rigningin mikilvægu hlutverki í myndinni. Tónlistin fannst mér sérstök en jafnframt koma mjög vel út. Eftir myndina var leikstjórinn einmitt spurður út í þetta atriði. Þar sagðist hann hafa látið taka upp ýmis hljóð á hótelinu (sem er hótel í raun og veru). Síðan hafi hann sent þau til góðkunningja síns sem blandaði þeim saman við tónlistina sem hann samdi fyrir myndina. Söguþráðurinn var hvorki flókinn né hraður eins og oft vill einkenna Hollywood myndir. Þetta var frekar hæg mynd ef svo má að orði komast og sumum fyndist hún eflaust leiðinleg fyrir þær sakir en ég hafði gaman að henni. Myndin var ekki gallalaus og sumt var frekar skrítið. T.d. er atriði þar sem Fleischman og hóteleigandinn eru að horfa á sjónvarp þar sem tékknesk skutla les veðurfréttir. Í næsta andrá birtist sama skutlan á hótelinu sem er full bókað. Hún fær samt herbergi fyrir rest. Ég veit ekki hvaða hlutverki hún átti að gegna nema kannski það að hún las veðurfréttir og Fleischman var áugamaður um veður. En samt kom þetta furðulega út eins og þetta var sett fram. Myndin dansaði á mörkum hins hversdagslega og draumkennda heims. Það kom bar nokkuð vel út.

Eins og sjá má á þessari mynd var ekki um neitt venjulegt hótel að ræða.

miðvikudagur, 26. september 2007

The General (1927)


The General fjallar um Johnny Gray (Buster Keaton) sem vinnur sem lestarstjóri á tímum Bandaríska borgarastríðsins (1861). Hann fær ekki inngöngu í herinn þar sem hann er talinn gegna mikilvægari hlutverki sem lestarstjóri. Þegar óvinurunn rænir lestinni hans og um leið hans heittelskuðu Annabelle Lee (Marion Mack) (sem fyrir tilviljun er um borð) neyðist hann til þess að hætta sér inn á óvinasvæðið til þess að bjarga bæði Annabelle og lestinni. Myndin gerist að mestu á lestarteinunum. Eltingar- og flóttaleikur, þar sem Johnny er fyrst að elta ræningjana en síðan þeir að elta hann eftir að hann hefur endurheimt lestina. Myndatakan finnst mér þrælgóð. Ótrúlega mörg lestaratriði eru t.d. tekin upp þannig að sjónarhornið er frá hlið, samferða lestinni (e.t.v tekin úr bíl á ferð, myndavélin er samt alltaf frekar stöðug). Myndin inniheldur m.a. dýrasta atriði þögla tímabilsins, þegar lest ekur yfir brennandi brú með þeim afleiðingum að brúin hrynur og lestin steypist ofan í fljótið fyrir neðan. Þar sem þetta er þögul mynd skiptir hljóðið þeim mun meira máli. Það brást ekki í þessari frábæru mynd. Strengir og pinaó juku spennuna með dramatískum tónum. Í heildina var þetta bæði mjög vönduð mynd og frábær skemmtun.

laugardagur, 22. september 2007

The Statement (2003)


Myndin fjallar um fyrrverandi böðul Nasista úr seinni heimstyrjöldinni sem sakaður er um að bera ábyrgð á dauða 7 gyðinga í Frakklandi. Hann fer huldu höfði eftir að hafa flúið dauðadóm. Menn innan kaþólsku kirkjunnar skjóta yfir hann skjólshúsi í áratugi en auk þess að vera eltur af lögreglu er hann ofsóttur af hópi gyðinga sem vilja ná fram hefndum fyrir trúbræður sína. Myndin, sem er kanadísk, byggir á sögu Brian Moore. Hún heldur manni við skjáinn því hún er bæði spennandi og vel gerð. Sagan á að gerast árið 1992 (myndin var gerð 2003) og þegar maður horfir á hana uppgötvar maður allt í einu að það er að verða helvíti langt síðan árið 1992 var þó manni finnist það alltaf frekar stutt. Engir farsímar komnir (símar og símtöl koma mikið við sögu í myndinni) og bílarnir “gamaldags”. 92 fílíngurinn í myndina var mjög sannfærandi. Þó það virðist í fljótu bragði vera stuttur tími þá þarf að huga að ýmsu við gerð kvikmyndar sem á að gerast 11 árum fyrr.

miðvikudagur, 19. september 2007

Life of Brian (1979)


Ég leigði mér mynd á Laugarásvideoi fyrir stuttu. Fyrir valinu varð Monty Python myndin Life of Brian frá árinu 1979. Myndin (sem er að sjálfsögðu grínmynd) fjallar um Brian sem er fæddur á sama tíma og Kristur. Fyrir slysni er hann álitinn spámaður Guðs og verður vinsæll meðal Jerúsalembúa. Það hefur vægast sagt slæmar afleiðingar í för með sér. Þessi mynd er algjör afbökun á Nýja testamentinu og var víst bönnuð í sumum löndum fyrir guðlast. Persónulega hef ég gaman af Monty Python húmornum og þessi mynd var engin undantekning. Fáir leikarar fara með flest hlutverk myndarinnar og ef maður þekkir John Cleese vel í útliti getur það reynst svolítið truflandi að sjá hann fyrst sem gyðing og síðan Rómverja stuttu síðar. Að vísu fannst mér það ekki skipta svo miklu máli í þessari mynd þar sem hún er laus við flesta eða ekki alla alvöru. Ágætis mynd hér á ferð, hæfilega súr, ekki síst góð afþreying. Auk þess bregður George Harrison fyrir í einu atriði. Ég komst reyndar ekki að því fyrr en eftir á. Það er samt varla hægt að segja að hann "leiki" í myndinni en engu að síður gaman að því.

sunnudagur, 16. september 2007

Veðramot (2007)


Þrír hippar á tvítugsaldri með byltingarkenndan hugsunarhátt taka við stjórn vistheimilis fyrir vandræðaunglinga. Þau gefa vistmönnum frjálsar hendur og líta á þá sem vini frekar en fanga í þeirri von um að það muni gera þeim auðveldara að komast á rétta braut í lífinu. Málið reynist hins vegar mun flóknara fyrir hippana, sem þó vilja vel. Í raun vita þau lítið sem ekkert um æsku barnanna sem dvelja þarna. Flest þeirra hafa átt hörmulega æsku. Ýmist hafa þau verið beitt kynferðislegu ofbeldi eða vanrækt á annan hátt. Það reynist ungu hippunum, sem sjálf eiga við sín eigin vandamál að stríða (t.d. eyturlyfjaneyslu) ofviða að ráða bót á þeim vandamálum sem steðja að. Vissulega er þessi mynd ádeila á Breiðavíkurheimilið sem var í umræðunni fyrir skemmstu en jafnframt á rekstur slíkra heimila almennt. Ungu hipparnir héldu að þeir hefðu fundið réttu leiðina til að reka Veðramót. Í myndinni er það staðreynd að fullorðna fólkið á sök á því hvernig fyrir börnunum er komið og því miður er það oftar en ekki staðreyndin í raunveruleikanum. Það eru ekki börnin sem eru til vandræða heldur hinir fullorðnu. Það þarf að fara allt öðruvísi að en að senda börnin upp í sveit.

Myndin fannst mér vera vel gerð og umfjöllunarefnið brýnt. Leikararnir fannst mér flestir standa sig með stakri príði, ekki síður þeir yngri en þeir eldri. Túlkun Jörundar Ragnarssonar á Samma fannst mér t.d. mjög góð en hann lék einnig í Astrópíu. Hér er greinilega á ferð leikari sem á framtíðina fyrir sér. Einnig fannst mér gaman að sjá að myndin var tekin upp á filmu sem gaf henni skemmtilegan blæ og gerði hana en áhrifameiri en ella. Tónlist Ragnhildar Gísladóttur kom nokkuð vel út fannst mér.

föstudagur, 7. september 2007

American Movie (1999)


American Movie er heimildarmynd um gerð hryllingsmyndarinnar Coven. Leikstjóra myndarinnar (þ.e. Coven) Mark Borchardt dreymir um frægð og frama en leiðin á toppinn virðist bæði löng og ströng. Vinnan tekur sinn toll hjá Mark, en ekki síður hjá fjölskyldu hans og vinum sem Mark nánast þvingar til þess að hjálpa sér við að gera kvikmyndir. Myndin var ekki sérlega góð sem afþreying en sem heimildarmynd var hún kannski ágæt. Það sem gerði þessa mynd skemmtilega var klárlega gamall frændi Marks, Bill, sem Mark fékk til að vera framleiðanda Coven. Hann var frekar skondinn. Að öðru leyti fannst mér myndin ekkert sérstök.

laugardagur, 25. ágúst 2007

Astropia (2007)


Astrópía kom mér virkilega á óvart. Ég var svo sem við öllu búinn eftir að hafa séð auglýsingaplakötin. Persónulega fannst mér þó byrjunin frekar langdregin en eftir hlé tók við nokkuð athyglisverð en skemmtileg atburðarás. Það er ekki á hverjum degi sem maður sér íslenska kvikmynd sem er í senn gamanmynd og ævintýra-/spennumynd og þar að auki með góðum húmor. Ragnhildur Steinunn stóð sig líka nokkuð vel í hlutverki Hildar. Þó myndin væri ekki laus við alla galla fannst mér hugmyndin skemmtileg og útfærslan nokkuð góð.

föstudagur, 24. ágúst 2007

Kvikmyndablog

Þessi síða var stofnuð sérstaklega í þeim tilgangi að "blogga" lítið eitt um kvikmyndir þær sem ég mun horfa á í Kvikmyndagerð í MR í vetur. Þetta kemur allt saman betur í ljós síðar.

Kveðja,
Gísli Magnússon