sunnudagur, 16. september 2007
Veðramot (2007)
Þrír hippar á tvítugsaldri með byltingarkenndan hugsunarhátt taka við stjórn vistheimilis fyrir vandræðaunglinga. Þau gefa vistmönnum frjálsar hendur og líta á þá sem vini frekar en fanga í þeirri von um að það muni gera þeim auðveldara að komast á rétta braut í lífinu. Málið reynist hins vegar mun flóknara fyrir hippana, sem þó vilja vel. Í raun vita þau lítið sem ekkert um æsku barnanna sem dvelja þarna. Flest þeirra hafa átt hörmulega æsku. Ýmist hafa þau verið beitt kynferðislegu ofbeldi eða vanrækt á annan hátt. Það reynist ungu hippunum, sem sjálf eiga við sín eigin vandamál að stríða (t.d. eyturlyfjaneyslu) ofviða að ráða bót á þeim vandamálum sem steðja að. Vissulega er þessi mynd ádeila á Breiðavíkurheimilið sem var í umræðunni fyrir skemmstu en jafnframt á rekstur slíkra heimila almennt. Ungu hipparnir héldu að þeir hefðu fundið réttu leiðina til að reka Veðramót. Í myndinni er það staðreynd að fullorðna fólkið á sök á því hvernig fyrir börnunum er komið og því miður er það oftar en ekki staðreyndin í raunveruleikanum. Það eru ekki börnin sem eru til vandræða heldur hinir fullorðnu. Það þarf að fara allt öðruvísi að en að senda börnin upp í sveit.
Myndin fannst mér vera vel gerð og umfjöllunarefnið brýnt. Leikararnir fannst mér flestir standa sig með stakri príði, ekki síður þeir yngri en þeir eldri. Túlkun Jörundar Ragnarssonar á Samma fannst mér t.d. mjög góð en hann lék einnig í Astrópíu. Hér er greinilega á ferð leikari sem á framtíðina fyrir sér. Einnig fannst mér gaman að sjá að myndin var tekin upp á filmu sem gaf henni skemmtilegan blæ og gerði hana en áhrifameiri en ella. Tónlist Ragnhildar Gísladóttur kom nokkuð vel út fannst mér.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli