miðvikudagur, 26. september 2007

The General (1927)


The General fjallar um Johnny Gray (Buster Keaton) sem vinnur sem lestarstjóri á tímum Bandaríska borgarastríðsins (1861). Hann fær ekki inngöngu í herinn þar sem hann er talinn gegna mikilvægari hlutverki sem lestarstjóri. Þegar óvinurunn rænir lestinni hans og um leið hans heittelskuðu Annabelle Lee (Marion Mack) (sem fyrir tilviljun er um borð) neyðist hann til þess að hætta sér inn á óvinasvæðið til þess að bjarga bæði Annabelle og lestinni. Myndin gerist að mestu á lestarteinunum. Eltingar- og flóttaleikur, þar sem Johnny er fyrst að elta ræningjana en síðan þeir að elta hann eftir að hann hefur endurheimt lestina. Myndatakan finnst mér þrælgóð. Ótrúlega mörg lestaratriði eru t.d. tekin upp þannig að sjónarhornið er frá hlið, samferða lestinni (e.t.v tekin úr bíl á ferð, myndavélin er samt alltaf frekar stöðug). Myndin inniheldur m.a. dýrasta atriði þögla tímabilsins, þegar lest ekur yfir brennandi brú með þeim afleiðingum að brúin hrynur og lestin steypist ofan í fljótið fyrir neðan. Þar sem þetta er þögul mynd skiptir hljóðið þeim mun meira máli. Það brást ekki í þessari frábæru mynd. Strengir og pinaó juku spennuna með dramatískum tónum. Í heildina var þetta bæði mjög vönduð mynd og frábær skemmtun.

laugardagur, 22. september 2007

The Statement (2003)


Myndin fjallar um fyrrverandi böðul Nasista úr seinni heimstyrjöldinni sem sakaður er um að bera ábyrgð á dauða 7 gyðinga í Frakklandi. Hann fer huldu höfði eftir að hafa flúið dauðadóm. Menn innan kaþólsku kirkjunnar skjóta yfir hann skjólshúsi í áratugi en auk þess að vera eltur af lögreglu er hann ofsóttur af hópi gyðinga sem vilja ná fram hefndum fyrir trúbræður sína. Myndin, sem er kanadísk, byggir á sögu Brian Moore. Hún heldur manni við skjáinn því hún er bæði spennandi og vel gerð. Sagan á að gerast árið 1992 (myndin var gerð 2003) og þegar maður horfir á hana uppgötvar maður allt í einu að það er að verða helvíti langt síðan árið 1992 var þó manni finnist það alltaf frekar stutt. Engir farsímar komnir (símar og símtöl koma mikið við sögu í myndinni) og bílarnir “gamaldags”. 92 fílíngurinn í myndina var mjög sannfærandi. Þó það virðist í fljótu bragði vera stuttur tími þá þarf að huga að ýmsu við gerð kvikmyndar sem á að gerast 11 árum fyrr.

miðvikudagur, 19. september 2007

Life of Brian (1979)


Ég leigði mér mynd á Laugarásvideoi fyrir stuttu. Fyrir valinu varð Monty Python myndin Life of Brian frá árinu 1979. Myndin (sem er að sjálfsögðu grínmynd) fjallar um Brian sem er fæddur á sama tíma og Kristur. Fyrir slysni er hann álitinn spámaður Guðs og verður vinsæll meðal Jerúsalembúa. Það hefur vægast sagt slæmar afleiðingar í för með sér. Þessi mynd er algjör afbökun á Nýja testamentinu og var víst bönnuð í sumum löndum fyrir guðlast. Persónulega hef ég gaman af Monty Python húmornum og þessi mynd var engin undantekning. Fáir leikarar fara með flest hlutverk myndarinnar og ef maður þekkir John Cleese vel í útliti getur það reynst svolítið truflandi að sjá hann fyrst sem gyðing og síðan Rómverja stuttu síðar. Að vísu fannst mér það ekki skipta svo miklu máli í þessari mynd þar sem hún er laus við flesta eða ekki alla alvöru. Ágætis mynd hér á ferð, hæfilega súr, ekki síst góð afþreying. Auk þess bregður George Harrison fyrir í einu atriði. Ég komst reyndar ekki að því fyrr en eftir á. Það er samt varla hægt að segja að hann "leiki" í myndinni en engu að síður gaman að því.

sunnudagur, 16. september 2007

Veðramot (2007)


Þrír hippar á tvítugsaldri með byltingarkenndan hugsunarhátt taka við stjórn vistheimilis fyrir vandræðaunglinga. Þau gefa vistmönnum frjálsar hendur og líta á þá sem vini frekar en fanga í þeirri von um að það muni gera þeim auðveldara að komast á rétta braut í lífinu. Málið reynist hins vegar mun flóknara fyrir hippana, sem þó vilja vel. Í raun vita þau lítið sem ekkert um æsku barnanna sem dvelja þarna. Flest þeirra hafa átt hörmulega æsku. Ýmist hafa þau verið beitt kynferðislegu ofbeldi eða vanrækt á annan hátt. Það reynist ungu hippunum, sem sjálf eiga við sín eigin vandamál að stríða (t.d. eyturlyfjaneyslu) ofviða að ráða bót á þeim vandamálum sem steðja að. Vissulega er þessi mynd ádeila á Breiðavíkurheimilið sem var í umræðunni fyrir skemmstu en jafnframt á rekstur slíkra heimila almennt. Ungu hipparnir héldu að þeir hefðu fundið réttu leiðina til að reka Veðramót. Í myndinni er það staðreynd að fullorðna fólkið á sök á því hvernig fyrir börnunum er komið og því miður er það oftar en ekki staðreyndin í raunveruleikanum. Það eru ekki börnin sem eru til vandræða heldur hinir fullorðnu. Það þarf að fara allt öðruvísi að en að senda börnin upp í sveit.

Myndin fannst mér vera vel gerð og umfjöllunarefnið brýnt. Leikararnir fannst mér flestir standa sig með stakri príði, ekki síður þeir yngri en þeir eldri. Túlkun Jörundar Ragnarssonar á Samma fannst mér t.d. mjög góð en hann lék einnig í Astrópíu. Hér er greinilega á ferð leikari sem á framtíðina fyrir sér. Einnig fannst mér gaman að sjá að myndin var tekin upp á filmu sem gaf henni skemmtilegan blæ og gerði hana en áhrifameiri en ella. Tónlist Ragnhildar Gísladóttur kom nokkuð vel út fannst mér.

föstudagur, 7. september 2007

American Movie (1999)


American Movie er heimildarmynd um gerð hryllingsmyndarinnar Coven. Leikstjóra myndarinnar (þ.e. Coven) Mark Borchardt dreymir um frægð og frama en leiðin á toppinn virðist bæði löng og ströng. Vinnan tekur sinn toll hjá Mark, en ekki síður hjá fjölskyldu hans og vinum sem Mark nánast þvingar til þess að hjálpa sér við að gera kvikmyndir. Myndin var ekki sérlega góð sem afþreying en sem heimildarmynd var hún kannski ágæt. Það sem gerði þessa mynd skemmtilega var klárlega gamall frændi Marks, Bill, sem Mark fékk til að vera framleiðanda Coven. Hann var frekar skondinn. Að öðru leyti fannst mér myndin ekkert sérstök.