föstudagur, 30. nóvember 2007

"Lewis" Whom the Gods Would Destroy (2007)


Maður finnst látin við bakka Thames í Oxford. Við rannsókn á morðinu kemur í ljós að maður þessi var nemandi í Oxford háskóla 20 árum áður. Þar stofnaði hann ásamt félögum sínum félag sem þeir kölluðu "Sons of the Twice Born". Í félagi þessu drukku þeir félagar og neyttu eiturlyfja en nafn félagsins vísar til goðsagnar um fæðingu vínguðsins Dionysusar í grískri goðafræði. Titill myndarinnar er hins vegar sóttur í tilvitnun Evripídesar (sem var eitt helsta harmleikjaskáld forn-Grikkja) "Whom the gods would destroy, they first make mad". Þegar Lewis og Hathaway (lögreglumenn) fara að rannsaka þetta félag betur komast þeir að því að ekki er allt með felldu. Frekar týpísk bresk sakamálamynd hér á ferð en þó ágæt tengingin við grísku goðafræðina og Nietzsche.

The Lord of the Rings: The Two Towers (2002)


Rúmlega þrír tímar fyrir framan skjáin en klárlega þess virði. Og þó þetta sé ekki eitthvað sem maður gerir á hverjum degi þá hef ég nú séð þessa mynd þó nokkrum sinnum. Fyrirfram hafði ég eiginlega ekki trú á að Peter Jackson væri rétti maðurinn til að leikstýra myndunum (raunar þekkti ég ekkert til Peter Jackson áður og var því alls ekki hæfur til þess að dæma um slíkt). Ég vanmat Peter Jackson augljóslega því að ég held að það sé engin spurning að maðurinn lagði gífurlegan metnað í þessar þrjár myndir. Útkoman finnst mér vera mjög svo ásættanleg. Auðvitað eru myndirnar ekki í fullu samræmi við bækurnar, ýmsu sleppt hér og þar og þó eru allar þrjár myndirnar gífurlega langar og jafnvel of langar ef út í það er farið. Ég held að það hefði samt ekki verið sniðugra að skipta sögunni niður í fleiri og styttri myndir því að bækurnar eru jú þrjár og af einhverri ástæðu finnst mér að myndirnar eigi líka að vera þrjár.


Í þetta skipti velti ég sérstaklega fyrir mér landslaginu og hvort það hefði mögulega verið hægt að taka myndina upp á Íslandi eins og hugmyndir voru uppi um (að ég best veit). Ef til vill hefði það verið möguleiki. Landslagið hér er ef til vill ekki ósvipað því sem fyrirfinnst á Nýja-Sjálandi (þar sem myndin var tekin upp). Hvað sem því líður er ég mjög sáttur með landslagið eins og það er í myndinni.

fimmtudagur, 29. nóvember 2007

Shanghai Noon (2000)


Ég hef alltaf haft nokkrar mætur á Jackie Chan, ef til vill vegna þess að hann sker sig að miklu leyti úr hvað varðar leik og húmor. Í myndinni, sem er einhvers konar kúrekagrínmynd leikur Jackie Chan kínverska lífvörðinn Chon Wang sem fer til Bandaríkjana til þess að bjarga prinsessu Pei Pei sem hefur verið rænt. Þar kynnist hann Roy O'Bannon (Owen Wilson) og þeir lenda í ýmsum ævintýrum. Þeir “félagar” Roy og Chon eru mjög ólíkar týpur. Roy er glaumgosi, góður með sig en afburða léleg skytta. Chon er hins vegar rólegri, örlítið klaufskur, kung fu meistari og reynir að hafa vit fyrir Roy sem er stundum frekar vitlaus. Myndin er sambland af flottum bardagaatriðum (eins og Jackie Cahne einum er lagið) og ágætum húmor. Í myndinni má finna vísanir í aðrar kvikmyndir. T.d. er nafn Chon Wang mistekið sem John Wayne þegar hann kemur til Bandaríkjanna en flestir ættu að vita hver hinn raunverulegi John Wayne var. Nokkuð góð afþreying hér á ferð.

miðvikudagur, 28. nóvember 2007

Mýrin (2006)


Ég hef hvorki lesið bókina né sá ég myndina í bíó eins og margir Íslendingar gerðu víst. Ef til vill er ekki verra að hafa lesið bókina áður en mér skilst að myndin sé í góðu samræmi við bókina. Að minsta kosti þótti mér myndin vel gerð í flesta staði. Þó ég hafi ekki lesið bókina hef ég lesið aðrar bækur eftir Arnald Indriðason og kannast því við Erlend og félaga. Ólíkt því sem oft vill verða þegar bækur eru kvikmyndaðar fannst mér persónurnar í myndinni koma vel saman við þær hugmyndir sem ég hafði af persónum eftir að hafa lesið bækur Arnaldar. Mér fannst Ingvar E. Sigurðsson passa vel í hlutverk Erlendar og eins og vænta mátti skilaði hann því hlutverki vel.

Ýmsir sem ég hef rætt við (reyndar aðallega kvenfólk) hafa sérstaklega minnst á það hvað þeim fannst atriði, þegar Erlendur er að borða sviðakjamma, vera ógeðslegt. Mér fannst fátt ógeðslegt við það, ekki síst í ljósi þess að nóg er af annars konar viðbjóði í myndinni. Ég held að ég geti sagt án nokkurs vafa að Baltasar Kormáki hafi tekist að koma sögu Arnaldar til skila á vandaðan hátt. Eftir að hafa séð myndina held ég að það sé svo ekki úr vegi að lesa bókina.

Eitt svona að lokum. Af hverju kemur Lalli Johns fyrir í myndinni? Ég efa stórlega að hans sé getið í bókinni. Þetta eyðilagði alls ekki myndina fyrir mér eða neitt svoleiðis en ég sá bara ekki tilganginn. Var hann kannski bara fyrir tilviljun á þessum stað þegar atriðið var tekið upp. Erlendur heilsar honum samt sérstaklega sem mér finnst dálítið athyglisvert.

þriðjudagur, 27. nóvember 2007

Smultronstället (1957)

Annað meistaraverk frá Bergman. Eftir að hafa séð brot úr myndinni Smultronstället (Wild Strawberries) í fyrirlestrinum um Bergman var ég staðráðinn í að sjá hana við tækifæri. Ég let því verða að því að taka hana á leigu.


Isak Borg hefur verið læknir í 50 ár. Hann ferðast frá Stokkhólmi til Lundar til að taka á móti heiðursverðlaunum. Á leiðinni rifjast upp fyrir honum ýmsar æskuminningar og hann áttar sig á því að líf hans einkennist af kulda og einmannaleika en því vill hann gjarnan breyta. Sagan er einföld og í senn sorgleg og falleg. Viss samsvörun er milli æskuminninga Isaks og raunveruleikans. Konan sem hann elskaði giftis bróður hans. Á leiðinni verða svo 3 ungmenni samferða Isak til Lundar, ein stúlka og tveir piltar sem hún þarf að velja á milli, líkt og konan sem valdi bróður Isaks fram yfir hann. Sagan er full af táknum og er sannkallað listaverk (kvikmyndin nýtur sín sem listform). Ég velti lengi fyrir mér hvaða hlutverki jarðaberin gegndu í myndinni og komst að því þegar ég fletti því upp á netinu að í Svíþjóð tákna vilt jarðarber endurfæðingu. Þetta mætti heimfæra upp á myndina með því að segja að Isak endurmeti líf sitt á leiðinni til Lundar. Ekki má gleyma að minnast á snilldarleik Victors Sjöström í hlutverki Isaks. Victor var sjálfur leikstjóri á þögla tímabilinu jafnframt því að leika. Wild Strawberries var síðasta myndin sem hann lék í, þremur árum áður en hann lést. Hann hefur stundum verið nefndur „faðir sænskrar kvikmyndagerðar.“

mánudagur, 26. nóvember 2007

The Man Who Knew Too Much (1956)


Myndin var á dagskrá sjónvarpsins þetta sunnudagskvöld. Hún fjallar um Amerísku hjónin Dr. og Mrs. McKenna sem fara með syni sínum í frí til Marokkó. Fríið endar hins vegar í martröð eftir að þau hjónin blandast inn í samsæri gegn hátt settum ráðamanni í London. Syni þeirra er rænt og þau fara til London í von um að finna son sinn og koma í veg fyrir morð. Atriði eitt sem gerist í Royal Albert Hall er frekar langt og dramatískt. Raunar er smá hluti úr því atriði sýndur í blábyrjun myndarinnar og sérstaklega tekið fram að það muni skipta miklu máli í myndinni. Þegar líður á myndina uppgötvar áhorfandinn hægt og rólega hvaða merkingu atriðið hefur og er því vel undirbúinn undir það sem koma skal. Þessi einfalda og augljósa leið til að koma hlutunum til skila er dæmigerð fyrir Hitchcock, eins og flestir ættu að vita eftir að hafa grandskoðað Notorious. Svo má nefna að báðar þessar myndir (þ.e. The Man Who Knew to Much og Notorious) enda svipað. Í Notorious var atriði þar sem Devlin fylgir Aliciu niður tröppunar til að "frelsa" hana frá Alexander. Þar er Alexander í þröngri aðstöðu. Þessi mynd endar hins vegar þannig að Mr. Drayton ógnar McKenna feðgunum með byssu og þvingar þá niður tröppunar. Í báðum myndunum eru það "skúrkarnir" sem eru í raun í vondri aðstöðu (og hafa ef til vill báðir samviskubit). Báðar myndinar enda illa fyrir skúrkana. Í Notorious endaði Alexander á að sitja upp með "forvitna félaga" en í þessari mynd deyr einfaldlega Mr. Drayton eftir að Dr. McKenna bregður fyrir hann fæti og hann verður fyrir eigin skoti.

laugardagur, 24. nóvember 2007

The Blue Yonder (1985)


11 ára drengur ferðast aftur í tímann til ársins 1927 til að stöðva afa sinn í að fljúga yfir Atlantshafið. Eftir að hafa dvalist þó nokkuð með afa sínum og lært sitthvað um flugvélar sannfærir drengurinn afa sinn um að hann sé sonarsonur hans. Hann reynir að koma í veg fyrir að afinn fljúgi yfir Atlantshafið því að hann veit að vélin mun farast á leiðinni. Afann hefur svo lengi dreymt um að verða fyrstur manna til a fljúga yfir Atlantshafið að hann lætur verða að því þrátt fyrir aðvaranir stráksins. Strákurinn fer vonsvikinn aftur til framtíðar en honum til mikillar gleði kemst hann að því að afi hans hafi orðið annar yfir Atlantshafið á eftir Lindbergh. Það sem mér þótti skrítnast við myndina var endirinn. Eftir að afinn er floginn af stað, flýtir drengurinn sér aftur til framtíðar og fann þar minnisvarða um flug afans. Svo endaði myndin. Mér fannst eins og það vantaði eitthvað. Hann hitti ekki foreldra sína eða afann (ef hann átti að vera enn á lífi).

Little Miss Sunshine (2006)


Furðuleg mynd um furðulega fjöslkyldu sem ferðast langa leið til Kaliforníu (á volkswagen rúgbrauði) svo að dóttirin geti tekið þátt í fegurðarsamkeppni. Í raun gerist ekki margt í myndinni. Samt sem áður, á einhvern óskiljanlegan hátt, fannst mér þetta bara þokkalegasta mynd. Kannski voru það hinar grátbroslegu persónur sem gerðu myndina einmitt svona áhugaverða. Sagan er einföld og hversdagsleg en persónurnar skipta mestu máli. Dóttirin, Olive Hoover, er 7 ára og þráir að taka þátt í fegurðarsamkeppni, bróðir hennar, Dwayne, hefur verið í þagnarbindindi í 9 mánuði og stefnir að því að verða flugmaður. Móðirin, Sheryl tekur að sér bróðir sinn, Frank, sem er hommi og hefur nýlega reynt að frema sjálfsmorð vegna ástarsorgar. Svo er það afinn, Edwin, sem var rekinn af elliheimilinu og er háður heroini. Samband persóna, sem þekkjast misvel þegar ferðalagið hefst, er stirt til að byrja með en þegar líður á myndina tekst fjölskyldunni að mynda einhvern furðulegan samhljóm. Myndin er hin ágætasta skemmtun.

þriðjudagur, 20. nóvember 2007

Ocean’s Thirteen (2007)



Danny Ocean og félagar ákveða að hefna gamla læriföðurins Rueben sem liggur á dánarbeðinu. Rueben hefur verið svikinn af hótel- og spilavítaeigandanum Bank. Í þetta skiptið hyggjast Danny og félagar ekki græða persónulega heldur ætla þeir að koma því í kring að spilavítið tapi. Með því að falsa spilaútbúnað, svo sem teninga, geta þeir hagrætt úrslitum í spilavítinu. Myndin er ekki ósvipuð fyrstu myndinni sem fjallaði um rán í spilavítum í Las Vegas nema hvað að í þessari mynd er ekki um beint rán að ræða (nokkuð sniðugt). Myndin er þó ekki laus við galla. T.d. fannst mér einstaka sinnum vanta aðeins upp á samhengið. Annars var þetta ágætis skemmtun.

mánudagur, 19. nóvember 2007

Det Sjunde Insiglet (1957)



Þetta meistarverka Bergman fjallar um riddarann Antonius Block sem snýr heim til Svíþjóðar ásamt förunauti sínum Jöns eftir krossför á miðöldum. Í Svíþjóð geysar þá Svarti-Dauði og ríkir hræðsla og ótti þar í landi. Auk þess er Dauðinn kominn til að sækja Antonius. Hann biður hins vegar Dauðan um að tefla við sig fyrst og vinnur þannig tíma. Við kynnumst fleiri persónum sem eru einkennandi fyrir samfélagið á miðöldum. Skákin er einhverskonar táknmynd fyrir lífið. Á góðum dögum þegar Antonius er bjartsýnn gengur honum vel í skákinni við Dauðan en þegar hann hefur misst alla von, vegna þeirra hörmunga sem ganga yfir, gengur skákin illa. Myndin er í svarthvítu og samspil birtu og skugga gefur myndinni aukna dýpt.

Some Like it Hot (1959)

Ég sá mér ekki fært að mæta á sýninguna á mánudeginum (12. nóvember að mig minnir) vegna prófs sem ég var að fara í daginn eftir. Auk þess hef ég séð myndina áður þó svo að liðin sé nokkur tími síðan. Ég ætla samt að reyna að skrifa eitthvað um hana.



Myndin fjallar semsagt um Jerry og Joe sem eru jazz tónlistarmenn í Chicago en neyðast til að flýja undan mafíunni. Þeir dulbúast sem klæðskiptingar (Josephine og Daphne) til að komast inn í stelpnaband og fara með bandinu til Flórída. Á leiðinni verða þeir báðir hrifnir af Sugar Kane (Marilyn Monroe) sem syngur og leikur á ukulele í bandinu. Þegar til Flórída er komið bregður Joe sér í annað hlutverk til að heilla Sugar Kane og þykist vera milljónamæringur. Á meðan verður raunverulegur miljónamæringur, Osgood Fielding, hrifinn af Daphne (Jerry). Þegar Osgood býður Jerry (í dulargervi Daphne) út í snekkjuna sína eitt kvöldið fær Joe Jerry til að halda Osgodd í landi svo hann geti sjálfur boðið Sugar Kane í snekkjuna sína. Leikur Tony Curtis (sem Joe/Josephine) og Jack Lemmon (sem Jerry/Daphne) var fínn, ekki síður kvenhlutverkin. Þó myndin sé gamanmynd má alltaf finna smá vott af alvöru. Mér fannst myndin þrælgóð en þó er ég ekki endilega sammála því að hún sé besta grín mynd allra tíma eins og sumir vilja meina.