miðvikudagur, 28. nóvember 2007
Mýrin (2006)
Ég hef hvorki lesið bókina né sá ég myndina í bíó eins og margir Íslendingar gerðu víst. Ef til vill er ekki verra að hafa lesið bókina áður en mér skilst að myndin sé í góðu samræmi við bókina. Að minsta kosti þótti mér myndin vel gerð í flesta staði. Þó ég hafi ekki lesið bókina hef ég lesið aðrar bækur eftir Arnald Indriðason og kannast því við Erlend og félaga. Ólíkt því sem oft vill verða þegar bækur eru kvikmyndaðar fannst mér persónurnar í myndinni koma vel saman við þær hugmyndir sem ég hafði af persónum eftir að hafa lesið bækur Arnaldar. Mér fannst Ingvar E. Sigurðsson passa vel í hlutverk Erlendar og eins og vænta mátti skilaði hann því hlutverki vel.
Ýmsir sem ég hef rætt við (reyndar aðallega kvenfólk) hafa sérstaklega minnst á það hvað þeim fannst atriði, þegar Erlendur er að borða sviðakjamma, vera ógeðslegt. Mér fannst fátt ógeðslegt við það, ekki síst í ljósi þess að nóg er af annars konar viðbjóði í myndinni. Ég held að ég geti sagt án nokkurs vafa að Baltasar Kormáki hafi tekist að koma sögu Arnaldar til skila á vandaðan hátt. Eftir að hafa séð myndina held ég að það sé svo ekki úr vegi að lesa bókina.
Eitt svona að lokum. Af hverju kemur Lalli Johns fyrir í myndinni? Ég efa stórlega að hans sé getið í bókinni. Þetta eyðilagði alls ekki myndina fyrir mér eða neitt svoleiðis en ég sá bara ekki tilganginn. Var hann kannski bara fyrir tilviljun á þessum stað þegar atriðið var tekið upp. Erlendur heilsar honum samt sérstaklega sem mér finnst dálítið athyglisvert.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli