þriðjudagur, 27. nóvember 2007

Smultronstället (1957)

Annað meistaraverk frá Bergman. Eftir að hafa séð brot úr myndinni Smultronstället (Wild Strawberries) í fyrirlestrinum um Bergman var ég staðráðinn í að sjá hana við tækifæri. Ég let því verða að því að taka hana á leigu.


Isak Borg hefur verið læknir í 50 ár. Hann ferðast frá Stokkhólmi til Lundar til að taka á móti heiðursverðlaunum. Á leiðinni rifjast upp fyrir honum ýmsar æskuminningar og hann áttar sig á því að líf hans einkennist af kulda og einmannaleika en því vill hann gjarnan breyta. Sagan er einföld og í senn sorgleg og falleg. Viss samsvörun er milli æskuminninga Isaks og raunveruleikans. Konan sem hann elskaði giftis bróður hans. Á leiðinni verða svo 3 ungmenni samferða Isak til Lundar, ein stúlka og tveir piltar sem hún þarf að velja á milli, líkt og konan sem valdi bróður Isaks fram yfir hann. Sagan er full af táknum og er sannkallað listaverk (kvikmyndin nýtur sín sem listform). Ég velti lengi fyrir mér hvaða hlutverki jarðaberin gegndu í myndinni og komst að því þegar ég fletti því upp á netinu að í Svíþjóð tákna vilt jarðarber endurfæðingu. Þetta mætti heimfæra upp á myndina með því að segja að Isak endurmeti líf sitt á leiðinni til Lundar. Ekki má gleyma að minnast á snilldarleik Victors Sjöström í hlutverki Isaks. Victor var sjálfur leikstjóri á þögla tímabilinu jafnframt því að leika. Wild Strawberries var síðasta myndin sem hann lék í, þremur árum áður en hann lést. Hann hefur stundum verið nefndur „faðir sænskrar kvikmyndagerðar.“

1 ummæli:

Siggi Palli sagði...

Stórgóð færsla!