föstudagur, 30. nóvember 2007

The Lord of the Rings: The Two Towers (2002)


Rúmlega þrír tímar fyrir framan skjáin en klárlega þess virði. Og þó þetta sé ekki eitthvað sem maður gerir á hverjum degi þá hef ég nú séð þessa mynd þó nokkrum sinnum. Fyrirfram hafði ég eiginlega ekki trú á að Peter Jackson væri rétti maðurinn til að leikstýra myndunum (raunar þekkti ég ekkert til Peter Jackson áður og var því alls ekki hæfur til þess að dæma um slíkt). Ég vanmat Peter Jackson augljóslega því að ég held að það sé engin spurning að maðurinn lagði gífurlegan metnað í þessar þrjár myndir. Útkoman finnst mér vera mjög svo ásættanleg. Auðvitað eru myndirnar ekki í fullu samræmi við bækurnar, ýmsu sleppt hér og þar og þó eru allar þrjár myndirnar gífurlega langar og jafnvel of langar ef út í það er farið. Ég held að það hefði samt ekki verið sniðugra að skipta sögunni niður í fleiri og styttri myndir því að bækurnar eru jú þrjár og af einhverri ástæðu finnst mér að myndirnar eigi líka að vera þrjár.


Í þetta skipti velti ég sérstaklega fyrir mér landslaginu og hvort það hefði mögulega verið hægt að taka myndina upp á Íslandi eins og hugmyndir voru uppi um (að ég best veit). Ef til vill hefði það verið möguleiki. Landslagið hér er ef til vill ekki ósvipað því sem fyrirfinnst á Nýja-Sjálandi (þar sem myndin var tekin upp). Hvað sem því líður er ég mjög sáttur með landslagið eins og það er í myndinni.

Engin ummæli: