miðvikudagur, 3. október 2007

RIFF: Grand Hotel

Ég lét loks verða að því að sjá mynd á kvimyndahátíð. Þetta var myndin Grandhotel eftir tékkneska leikstjórann David Ondricek. Myndin var sýnd í Regnboganum og var fullt út úr dyrum. Það vildi svo heppilega til að Ondricek og Klára Issová (sem fer með aðal kvenhlutverkið) voru bæði viðstödd sýningu myndarinnar og svöruðu spurningum áhorfanda að henni lokinni. Sögusviðið er gamalt fjallahótel ofan við smábæ í Tékklandi. Þar vinnur Fleischman nokkur sem vörður. Hann er mikill áhugamaður um veðurfræði, fylgist sífellt með veðrinu og skráir inn ýmsar upplýsingar á þar til gerð kort. Hann er líka að sauma sér loftbelg í afskekktum hluta hótelsins, en hann dreymir um að fljúga í burtu til að flýja eigin tilvist. Veðrið á þessum slóðum er ekki ósvipað því sem þekkist hér á Íslandi og gegnir rigningin mikilvægu hlutverki í myndinni. Tónlistin fannst mér sérstök en jafnframt koma mjög vel út. Eftir myndina var leikstjórinn einmitt spurður út í þetta atriði. Þar sagðist hann hafa látið taka upp ýmis hljóð á hótelinu (sem er hótel í raun og veru). Síðan hafi hann sent þau til góðkunningja síns sem blandaði þeim saman við tónlistina sem hann samdi fyrir myndina. Söguþráðurinn var hvorki flókinn né hraður eins og oft vill einkenna Hollywood myndir. Þetta var frekar hæg mynd ef svo má að orði komast og sumum fyndist hún eflaust leiðinleg fyrir þær sakir en ég hafði gaman að henni. Myndin var ekki gallalaus og sumt var frekar skrítið. T.d. er atriði þar sem Fleischman og hóteleigandinn eru að horfa á sjónvarp þar sem tékknesk skutla les veðurfréttir. Í næsta andrá birtist sama skutlan á hótelinu sem er full bókað. Hún fær samt herbergi fyrir rest. Ég veit ekki hvaða hlutverki hún átti að gegna nema kannski það að hún las veðurfréttir og Fleischman var áugamaður um veður. En samt kom þetta furðulega út eins og þetta var sett fram. Myndin dansaði á mörkum hins hversdagslega og draumkennda heims. Það kom bar nokkuð vel út.

Eins og sjá má á þessari mynd var ekki um neitt venjulegt hótel að ræða.

Engin ummæli: