mánudagur, 8. október 2007

RIFF: Ávallt, aldrei og hvar sem er


Alveg hreint furðulegt mynd. Þegar ég las um myndina í bæklingnum hugsaði ég með mér hvort það gæti virkilega verið að sögusviðið væri bara einn bíll, eða því sem næst. Ég var forvitinn að sjá hvort þetta væri virkilega svo súr pæling, þrír menn læstir inn í bíl bíðandi eftir hjálp. Og viti menn, sú var raunin (fyrir utan blábyrjun myndarinnar). Ég sá fram á langdregna mynd, e.t.v. einhverja steypumynd uppfulla af súrum bröndurum og þess háttar. Því miður kom annað á daginn. Myndin átti eflaust að vera fyndinn en þó svo að sumum hafi eflaust fundist hún fyndin á köflum (kannski vegna þess hversu hræðilega slöpp hún var) var fátt hlægilegt við þessa mynd. Þessir þrír furðufuglar sem þarna voru saman komnir voru vægast sagt leiðinlegar persónur. Leikurinn var ekki upp á marga fiska en þó hátíð á miðað við söguna. Þetta var í alla staði misheppnuð tilraun til að gera áhugaverða mynd sem gerist öll á sama stað. Fyrir utan að vera mjög langdregin (vegna þess að aðstæður voru alltaf þær sömu) voru samræður mannanna þriggja í bílnum flestar mjög óáhugaverðar. Ef til vill var það ætlunin að gera einhæfa mynd sem þar að auki innihélt ömurlegar samræður ömurlegra manna. Það tókst allaveganna hvort sem það var hugmyndin eður ei. Þegar ég var við það að sofna gerðist þó dálítið athyglisvert (e.t.v. það eina jákvæða við þessa mynd). Ungur drengur finnur mennina þrjá og verður atburðarásin ögn frumlegri eftir það. Þessi drengur er þó ekki sérlega hjálplegur mönnunum þremur heldur þvert á móti gerir þeim lífið leitt. Þetta fannst mér nú frekar ódýr lausn til að skapa spennu í myndinni sem að öðru leiti var laus við flesta spennu. Ég er farinn að hallast að þeirri skoðun að markmið myndarinnar hafi einmitt átt að láta áhorfandanum líða eins og hann væri fastur með mönnunum þremur. Reyndar tókst það að ýmsu leiti. Mér leiddist t.d. virkilega mestan tímann líkt og mönnunum í bílnum. Hins vegar fannst mér allt of lítið af skotum innan úr bílnum sjálfum miðað við eðli myndarinnar. Mér leið því aldrei eins og ég væri hluti af myndinni. Hitt hefði verið ögn áhrifaríkara ef leikstjóranum hefði tekist að láta áhorfendum líða eins og hann væri sjálfur fastur inni í bíl í margar sólarhringa.

Engin ummæli: