miðvikudagur, 10. október 2007

The Cabinet of Dr. Caligari (1920)



Myndin fjallar um Dr. Caligari sem heldur sýningar þar sem hann sýnir svefngengilinn Cesare sem getur spáð fyrir um framtíðina. Francis fer með félaga sínum Alan á eina sýningu Caligari þar sem Alan freistast til að spyrja Cesare hversu mikið hann eigi eftir ólifað. Cesare spáir því að Alan eigi einungis eftir að lifa fram að kvöldi sama dags. Cesare reynist því miður sannspár þar sem Alan er myrtur þetta sama kvöld. Francis er staðráðin í að komast að því hver myrti vin hans og vitaskuld beinist athyglin að Dr. Caligari og svefngengli hans. Hins vegar er ekki allt sem sýnist og atburðarásin sem fylgir í kjölfarið hefur varanleg áhrif á líf Francis. Myndin er líklegast sú þekktasta sem kennd er við hinn svokallaða expressionisma en sú stefna var vinsæl í þýskri kvikmyndagerð á þögla tímabilinu. Öll sviðmyndin er teiknuð og allt frekar abstrakt. Ljós og skuggar gefa myndinni aukið tilfinningalegt gildi auk þess sem leikurinn er mjög ýktur. Sumir vilja meina að expressionisminn eigi upptök sín í málverkinu Ópinu eftir Edvard Munch en hvort sem það er satt eður ei þá er þetta athyglisverð stefna sem er ekki síst það sem gerir Dr. Caligari að jafnmerkilegri mynd og raun ber vitni þó svo að sagan sé mjög góð með spennandi söguþræði og opnum endi sem skilur áhorfandann eftir með ótal ósvaraðar spurningar í kollinum.

Engin ummæli: