þriðjudagur, 23. október 2007
8 1/2 (1963)
Þessi færsla verður ef til vill jafnruglingsleg og myndin.
Þetta var frekar löng og stórfurðuleg mynd. Vissulega voru þarna ansi skrautleg og vel gerð atriði en ég áttaði mig ekki almennilega á samhenginu. Þetta snérist eitthvað um konurnar í lífi aðalpersónunnar og sambandið við eiginkonuna. Aðalpersónan virtist eiga mjög annríkt. Önnum kafinn leikstjóri. Býður svo konunni sinni á tökstað því hann þykist sakna hennar. Konan heldur að hann haldi framhjá sér og hann sé umvafinn kvenmönnum en í raun virðist hann alltaf hrinda kvenfólki frá sér, ef til vill eitthvað tengt æsku hans sem birtist oft inn á milli. Annars átti ég erfitt á að skilja söguþráðin ef hann var þá einhver.
Lokaatriðið þegar allir dansa í burtu hefur ef til vill eitthvað táknrænt gildi en ég bara gat ekki áttað mig á því. Kannski var ég bara of þreyttur þegar ég sá myndina.
fimmtudagur, 11. október 2007
Top Secret! (1984)
Þessi óborganlega gamanmynd með Val Kilmer í aðalhlutverki fjallar um rokkstjörnuna Nick Rivers sem ferðast til Austur-Þýskalands sem fulltrúi Bandaríkjanna á menningarhátíð þar í landi. Stjórnvöld hafa hins vegar ýmislegt óhreint í pokahorninu og kæra sig ekkert um að utanaðkomendur séu að snuðra í innanlandsmálum (sem þó varða öryggi allra jarðarbúa) Þessi mynd deilir óspart á ástandið í Þýskalandi á tímum seinni heimstyrjaladarinnar og gerir hiklaust gín að flestu sem hægt er að gera grín að. Þessi mynd er laus við flesta skynsemi en öllu gríni fylgir smá alvara sem lýsir sér í kaldhæðninni sem felst í því að gera grín að Þýskalandi nasismans. Fyrir utan hið hefðbundna grín í myndinni er auk þess alveg sérstakur húmor í gangi sem felst í því að athyglin beinist oft frá söguþræðinum að einhverju fáranlegu sem á sér stað í bakgrunninum, aðeins til að vekju furðu áhorfenda og gera myndina kjánalega fyndna. Dæmi um þetta er þegar úr sem ein persónan lítur á er orðið risavaxið í næsta skoti. Svipað atvik á sér stað með ofvaxinn síma. Einnig er heilt atriði í bókabúð sem gerist afturábak. Þar talar sænskur eigandi búðarinnar afturábak við aðalpersónurnar til að koma leynilegum upplýsingum til skila. Semsagt stútfull mynd sem hæðist jafnt að Elvis Presley og Nasistum.
miðvikudagur, 10. október 2007
Stuttmyndamaraþonið
Jæja, hér er loksins smá umfjöllun um hið löngu liðna stuttmyndamaraþon. Hópurinn samanstóð af mér (Gísla), Bjarka, Daníeli, Hlyni og Roberti.
Við vorum kannski full öruggir með okkur, héldum að við færum létt með eitt lítið maraþon. Upphaflega kom Bjarki með ágætis hugmynd og eftir á að hyggja voru líklegast stærstu mistök okkar að hafna þeirri hugmynd. Að lokum var ný hugmynd fengin (með hjálp Andra Gunnars Haukssonar (5-Y)) og handrit samið á síðustu stundu. Að lokum gat rúmlega 5 tíma vinna af sér u.þ.b. 4 mínútna stuttmynd. Eins og glöggir nemendur muna eflaust (þ.e. þeir sem sáu myndina í tímanum) fjallar hún um tvo stráka sem læsast inn í kjallara í leit að leikjatölvu sem endar svo með ósköpum. Þetta var kannski ekki frumlegasta hugmynd sem fram hefur komið en þrátt fyrir þær erfiðu aðstæður sem við lentum í (m.a. heilmikið vesen í tenglsum við klippingu myndarinnar í vélinni) gátu vonandi flestir skemmt sér yfir áhorfinu. Eftirfarandi málshættir eru mér ofarlega í huga þegar ég hugsa um gerð myndarinnar: „Maður uppsker eins og maður sáir“ og „Æfingin skapar meistarann“. Stuttmyndamaraþonið var góð æfing og allir ættu að hafa lært eitthvað nýtt og jafnvel talsvert ef þetta var þeirra fyrsta stuttmynd.
Við vorum kannski full öruggir með okkur, héldum að við færum létt með eitt lítið maraþon. Upphaflega kom Bjarki með ágætis hugmynd og eftir á að hyggja voru líklegast stærstu mistök okkar að hafna þeirri hugmynd. Að lokum var ný hugmynd fengin (með hjálp Andra Gunnars Haukssonar (5-Y)) og handrit samið á síðustu stundu. Að lokum gat rúmlega 5 tíma vinna af sér u.þ.b. 4 mínútna stuttmynd. Eins og glöggir nemendur muna eflaust (þ.e. þeir sem sáu myndina í tímanum) fjallar hún um tvo stráka sem læsast inn í kjallara í leit að leikjatölvu sem endar svo með ósköpum. Þetta var kannski ekki frumlegasta hugmynd sem fram hefur komið en þrátt fyrir þær erfiðu aðstæður sem við lentum í (m.a. heilmikið vesen í tenglsum við klippingu myndarinnar í vélinni) gátu vonandi flestir skemmt sér yfir áhorfinu. Eftirfarandi málshættir eru mér ofarlega í huga þegar ég hugsa um gerð myndarinnar: „Maður uppsker eins og maður sáir“ og „Æfingin skapar meistarann“. Stuttmyndamaraþonið var góð æfing og allir ættu að hafa lært eitthvað nýtt og jafnvel talsvert ef þetta var þeirra fyrsta stuttmynd.
The Cabinet of Dr. Caligari (1920)
Myndin fjallar um Dr. Caligari sem heldur sýningar þar sem hann sýnir svefngengilinn Cesare sem getur spáð fyrir um framtíðina. Francis fer með félaga sínum Alan á eina sýningu Caligari þar sem Alan freistast til að spyrja Cesare hversu mikið hann eigi eftir ólifað. Cesare spáir því að Alan eigi einungis eftir að lifa fram að kvöldi sama dags. Cesare reynist því miður sannspár þar sem Alan er myrtur þetta sama kvöld. Francis er staðráðin í að komast að því hver myrti vin hans og vitaskuld beinist athyglin að Dr. Caligari og svefngengli hans. Hins vegar er ekki allt sem sýnist og atburðarásin sem fylgir í kjölfarið hefur varanleg áhrif á líf Francis. Myndin er líklegast sú þekktasta sem kennd er við hinn svokallaða expressionisma en sú stefna var vinsæl í þýskri kvikmyndagerð á þögla tímabilinu. Öll sviðmyndin er teiknuð og allt frekar abstrakt. Ljós og skuggar gefa myndinni aukið tilfinningalegt gildi auk þess sem leikurinn er mjög ýktur. Sumir vilja meina að expressionisminn eigi upptök sín í málverkinu Ópinu eftir Edvard Munch en hvort sem það er satt eður ei þá er þetta athyglisverð stefna sem er ekki síst það sem gerir Dr. Caligari að jafnmerkilegri mynd og raun ber vitni þó svo að sagan sé mjög góð með spennandi söguþræði og opnum endi sem skilur áhorfandann eftir með ótal ósvaraðar spurningar í kollinum.
mánudagur, 8. október 2007
RIFF: Ávallt, aldrei og hvar sem er
Alveg hreint furðulegt mynd. Þegar ég las um myndina í bæklingnum hugsaði ég með mér hvort það gæti virkilega verið að sögusviðið væri bara einn bíll, eða því sem næst. Ég var forvitinn að sjá hvort þetta væri virkilega svo súr pæling, þrír menn læstir inn í bíl bíðandi eftir hjálp. Og viti menn, sú var raunin (fyrir utan blábyrjun myndarinnar). Ég sá fram á langdregna mynd, e.t.v. einhverja steypumynd uppfulla af súrum bröndurum og þess háttar. Því miður kom annað á daginn. Myndin átti eflaust að vera fyndinn en þó svo að sumum hafi eflaust fundist hún fyndin á köflum (kannski vegna þess hversu hræðilega slöpp hún var) var fátt hlægilegt við þessa mynd. Þessir þrír furðufuglar sem þarna voru saman komnir voru vægast sagt leiðinlegar persónur. Leikurinn var ekki upp á marga fiska en þó hátíð á miðað við söguna. Þetta var í alla staði misheppnuð tilraun til að gera áhugaverða mynd sem gerist öll á sama stað. Fyrir utan að vera mjög langdregin (vegna þess að aðstæður voru alltaf þær sömu) voru samræður mannanna þriggja í bílnum flestar mjög óáhugaverðar. Ef til vill var það ætlunin að gera einhæfa mynd sem þar að auki innihélt ömurlegar samræður ömurlegra manna. Það tókst allaveganna hvort sem það var hugmyndin eður ei. Þegar ég var við það að sofna gerðist þó dálítið athyglisvert (e.t.v. það eina jákvæða við þessa mynd). Ungur drengur finnur mennina þrjá og verður atburðarásin ögn frumlegri eftir það. Þessi drengur er þó ekki sérlega hjálplegur mönnunum þremur heldur þvert á móti gerir þeim lífið leitt. Þetta fannst mér nú frekar ódýr lausn til að skapa spennu í myndinni sem að öðru leiti var laus við flesta spennu. Ég er farinn að hallast að þeirri skoðun að markmið myndarinnar hafi einmitt átt að láta áhorfandanum líða eins og hann væri fastur með mönnunum þremur. Reyndar tókst það að ýmsu leiti. Mér leiddist t.d. virkilega mestan tímann líkt og mönnunum í bílnum. Hins vegar fannst mér allt of lítið af skotum innan úr bílnum sjálfum miðað við eðli myndarinnar. Mér leið því aldrei eins og ég væri hluti af myndinni. Hitt hefði verið ögn áhrifaríkara ef leikstjóranum hefði tekist að láta áhorfendum líða eins og hann væri sjálfur fastur inni í bíl í margar sólarhringa.
sunnudagur, 7. október 2007
Heima
Heimildamyndin Heima fjallar um tónleikaferðalag Sigur Rósar um Ísland 2006. Í myndinni er hljómsveitinni fylgt hringinn í kringum landið með viðkomu á afskekktum stöðum þar sem hljómsveitin lék fyrir áhorfendur sem oftar en ekki voru í færri kantinum. Auk þess sem tónleikum sveitarinnar er fylgt eftir fær náttúra Íslands að njóta sín í myndinni og oft er tónlistin látin túlka ýmis náttúrufyrirbrigði. Einnig eru áhorfendur myndaðir í bak og fyrir, ekki síst börn að leik sem mér finnst gefa myndinni einhvers konar einlægni-blæ. Hljóð og myndataka gegna lykilhlutverki í myndinni og sameinast og mynda eina heild. Vel gerð mynd um einstaka hljósveit.
miðvikudagur, 3. október 2007
RIFF: Grand Hotel
Ég lét loks verða að því að sjá mynd á kvimyndahátíð. Þetta var myndin Grandhotel eftir tékkneska leikstjórann David Ondricek. Myndin var sýnd í Regnboganum og var fullt út úr dyrum. Það vildi svo heppilega til að Ondricek og Klára Issová (sem fer með aðal kvenhlutverkið) voru bæði viðstödd sýningu myndarinnar og svöruðu spurningum áhorfanda að henni lokinni. Sögusviðið er gamalt fjallahótel ofan við smábæ í Tékklandi. Þar vinnur Fleischman nokkur sem vörður. Hann er mikill áhugamaður um veðurfræði, fylgist sífellt með veðrinu og skráir inn ýmsar upplýsingar á þar til gerð kort. Hann er líka að sauma sér loftbelg í afskekktum hluta hótelsins, en hann dreymir um að fljúga í burtu til að flýja eigin tilvist. Veðrið á þessum slóðum er ekki ósvipað því sem þekkist hér á Íslandi og gegnir rigningin mikilvægu hlutverki í myndinni. Tónlistin fannst mér sérstök en jafnframt koma mjög vel út. Eftir myndina var leikstjórinn einmitt spurður út í þetta atriði. Þar sagðist hann hafa látið taka upp ýmis hljóð á hótelinu (sem er hótel í raun og veru). Síðan hafi hann sent þau til góðkunningja síns sem blandaði þeim saman við tónlistina sem hann samdi fyrir myndina. Söguþráðurinn var hvorki flókinn né hraður eins og oft vill einkenna Hollywood myndir. Þetta var frekar hæg mynd ef svo má að orði komast og sumum fyndist hún eflaust leiðinleg fyrir þær sakir en ég hafði gaman að henni. Myndin var ekki gallalaus og sumt var frekar skrítið. T.d. er atriði þar sem Fleischman og hóteleigandinn eru að horfa á sjónvarp þar sem tékknesk skutla les veðurfréttir. Í næsta andrá birtist sama skutlan á hótelinu sem er full bókað. Hún fær samt herbergi fyrir rest. Ég veit ekki hvaða hlutverki hún átti að gegna nema kannski það að hún las veðurfréttir og Fleischman var áugamaður um veður. En samt kom þetta furðulega út eins og þetta var sett fram. Myndin dansaði á mörkum hins hversdagslega og draumkennda heims. Það kom bar nokkuð vel út.
Eins og sjá má á þessari mynd var ekki um neitt venjulegt hótel að ræða.
Eins og sjá má á þessari mynd var ekki um neitt venjulegt hótel að ræða.
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)