sunnudagur, 6. janúar 2008

Arabesque (1966) – Sunnudagsbíó Sjónvarpsins



Gregory Peck og Sophia Loren fara með aðalhlutverkin í þessari rómantísku spennumynd sem var á dagskrá Sjónvarpsins að kvöldi þrettánda dags jóla. Prófessor David Pollock (Peck) er sérfræðingur í arabísku myndletri og er fenginn til að leysa dulmálskóða sem gætu innihaldið uppplýsingar varðandi forsetisráðherra í Austurlöndum nær. Áður en Pollock veit af er hann flæktur inn í samsæri gegn fyrrgreindum forsætisráðherra. Hann kynnist Yasmin Azir (Loren) og saman tekst þeim að bjarga málunum. Myndin er að mörgu leyti fín og sagan í sjálfu sér ágæt. Myndatakan er nokkuð athyglisverð. Í fyrsta lagi er þó nokkuð oft myndað í gegnum spegla (t.d. spegla á bíl) og í einu atriði er myndað gegnum fiskabúr. Auk þess er myndatakan þegar búið er að dópa Pollock upp og hann skilinn eftir út á miðjum vegi nokkuð skemmtileg. Ofsjónirnar sem Pollock á að upplifa á sýru (eða einhverju álíka) eru túlkaðar t.d. með því að hafa allt í móðu og sýna allt tvöfalt. Auk þess bregður fyrir ýmsum furðulegum fyrirbærum til að auka áhrifin enn frekar og til að kóróna alla sýruna byrjar Pollock að syngja Gaudeamus igitur.