sunnudagur, 13. janúar 2008

The Kite Runner (2007)


Vinur minn hafði samband við mig og spurði mig hvort ég hefði áhuga á að fara á forsýningu myndarinnar. Hann hafði þá nýlokið við að lesa bókina og var spenntur fyrir að sjá hvernig myndin væri. Ég hafði hins vegar ekki lesið bókina en kannaðist þó við nafnið. Það eina sem ég vissi um myndina áður en ég sá hana var það að hún fjallaði um einhverja tvo stráka í Afganistan að leika sér með flugdreka. Reyndar vissi ég líka að þetta væri dramatísk saga, og svo sannarlega var hún dramatísk.

Þó svo að ég viti ekki hversu áreiðanlegar heimildir sagan hefur að geyma veitir hún a.m.k. einhverja sýn á lífið í Afganistan og þær gífurlegu breytingar sem þar hafa orðið á undanförnum áratugum.

Eftir myndina bárum við félagi minn saman bækur okkar. Ég tjáði honum að mær þætti myndin frekar góð. Honum fannst bókin hins vegar talsvert betri en myndin (honum fannst þó myndin alls ekki slæm). Hann talaði t.d. um að sumt sem hefði haft mikið vægi í bókinni hefði verið einfaldað of mikið í myndinni og að bókin væri enn áhrifameiri. Sumir hlutar sögunar gerðust líka hraðar en aðrir. Þar var ég reyndar sammála vini mínum. Ég ætla ekki að fara nákvæmlega út í ákveðna atburði en e.t.v. má orða þetta svona: Á u.þ.b. einni mínútu í myndinni breytast aðstæður aðalpersónunnar frekar mikið og að sú atburðarás taki ekki lengri tíma en u.þ.b. eina mínútu í myndinni fannst okkur félögunum dálítið sérstakt. Ef til vill er þetta allt með ráðum gert til þess að undirstrika að þessir atburðir í lífi aðalpersónunnar skipti litlu máli í samanburði við allt hitt.