miðvikudagur, 30. janúar 2008
Brúðguminn (2008)
Ég skellti mér á þessa nýjustu mynd Baltasar Kormáks sem byggð er á leikritinu Ivanov eftir Anton Tsjekhov. Leikritið er nú til sýningar í Þjóðleikhúsinu í leikstjórn Baltasar. Sömu leikarar leika í myndinni og leikritinu og mætti því segja að Baltasar hafi slegið tvær flugur í einu höggi.
Myndin er þannig uppbyggð að það koma flashbacks með reglulegu millibili sem sýna atburðarás sem á að gerast áður en myndin hefst. Myndin byrjar því eiginlega í miðjunni og þess vegna er hún dálítið ruglingsleg. Atburðir sem sýndir eru úr fortíðinni hjálpa til við skilning á því sem gerist síðar í myndinni og því mætti e.t.v. líkja upssetningu myndarinnar við púsluspil þar sem heildarmyndin fæst ekki fyrr en í lokin.
Hljóðkerfið í Regnboganum var frekar slappt þegar ég sá myndina, alltaf eitthvað suð, en það varð þó ekki til að eyðileggja ánægjuna af myndinni. Annars var frumsamin tónlist þeirra Jóns Ólafssonar og Sigurðar Bjólu fín. Þótt umfjöllunarefnið sé dramatískt er einhver léttur blær yfir myndinni. Á yfirborðinu er aðalpersónan, Jón (Hilmir Snær), mjög passífur karakter og gerir eiginlega ekkert markvert og er eiginlega bara eitthvað að slæpast um. Samt fannst mér hann eitthvað svo heillandi (á einhvern óskiljanlegan hátt). Hann virðist vera frekar kærulaus og ábyrgðarlaus gagnvart eiginkonu sinni sem er deyjandi en sennilega á hann sjálfur erfitt. Hann er á krossgötum í lífinu en gengur illa að takast á við sjálfan sig.
Kvót myndarinnar: „Ég er kannski geðveik en þú ert sjúkur!“
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
4 stig.
Skrifa ummæli