miðvikudagur, 30. janúar 2008

Brúðguminn (2008)


Ég skellti mér á þessa nýjustu mynd Baltasar Kormáks sem byggð er á leikritinu Ivanov eftir Anton Tsjekhov. Leikritið er nú til sýningar í Þjóðleikhúsinu í leikstjórn Baltasar. Sömu leikarar leika í myndinni og leikritinu og mætti því segja að Baltasar hafi slegið tvær flugur í einu höggi.
Myndin er þannig uppbyggð að það koma flashbacks með reglulegu millibili sem sýna atburðarás sem á að gerast áður en myndin hefst. Myndin byrjar því eiginlega í miðjunni og þess vegna er hún dálítið ruglingsleg. Atburðir sem sýndir eru úr fortíðinni hjálpa til við skilning á því sem gerist síðar í myndinni og því mætti e.t.v. líkja upssetningu myndarinnar við púsluspil þar sem heildarmyndin fæst ekki fyrr en í lokin.
Hljóðkerfið í Regnboganum var frekar slappt þegar ég sá myndina, alltaf eitthvað suð, en það varð þó ekki til að eyðileggja ánægjuna af myndinni. Annars var frumsamin tónlist þeirra Jóns Ólafssonar og Sigurðar Bjólu fín. Þótt umfjöllunarefnið sé dramatískt er einhver léttur blær yfir myndinni. Á yfirborðinu er aðalpersónan, Jón (Hilmir Snær), mjög passífur karakter og gerir eiginlega ekkert markvert og er eiginlega bara eitthvað að slæpast um. Samt fannst mér hann eitthvað svo heillandi (á einhvern óskiljanlegan hátt). Hann virðist vera frekar kærulaus og ábyrgðarlaus gagnvart eiginkonu sinni sem er deyjandi en sennilega á hann sjálfur erfitt. Hann er á krossgötum í lífinu en gengur illa að takast á við sjálfan sig.

Kvót myndarinnar: „Ég er kannski geðveik en þú ert sjúkur!“

sunnudagur, 13. janúar 2008

The Kite Runner (2007)


Vinur minn hafði samband við mig og spurði mig hvort ég hefði áhuga á að fara á forsýningu myndarinnar. Hann hafði þá nýlokið við að lesa bókina og var spenntur fyrir að sjá hvernig myndin væri. Ég hafði hins vegar ekki lesið bókina en kannaðist þó við nafnið. Það eina sem ég vissi um myndina áður en ég sá hana var það að hún fjallaði um einhverja tvo stráka í Afganistan að leika sér með flugdreka. Reyndar vissi ég líka að þetta væri dramatísk saga, og svo sannarlega var hún dramatísk.

Þó svo að ég viti ekki hversu áreiðanlegar heimildir sagan hefur að geyma veitir hún a.m.k. einhverja sýn á lífið í Afganistan og þær gífurlegu breytingar sem þar hafa orðið á undanförnum áratugum.

Eftir myndina bárum við félagi minn saman bækur okkar. Ég tjáði honum að mær þætti myndin frekar góð. Honum fannst bókin hins vegar talsvert betri en myndin (honum fannst þó myndin alls ekki slæm). Hann talaði t.d. um að sumt sem hefði haft mikið vægi í bókinni hefði verið einfaldað of mikið í myndinni og að bókin væri enn áhrifameiri. Sumir hlutar sögunar gerðust líka hraðar en aðrir. Þar var ég reyndar sammála vini mínum. Ég ætla ekki að fara nákvæmlega út í ákveðna atburði en e.t.v. má orða þetta svona: Á u.þ.b. einni mínútu í myndinni breytast aðstæður aðalpersónunnar frekar mikið og að sú atburðarás taki ekki lengri tíma en u.þ.b. eina mínútu í myndinni fannst okkur félögunum dálítið sérstakt. Ef til vill er þetta allt með ráðum gert til þess að undirstrika að þessir atburðir í lífi aðalpersónunnar skipti litlu máli í samanburði við allt hitt.

sunnudagur, 6. janúar 2008

Arabesque (1966) – Sunnudagsbíó Sjónvarpsins



Gregory Peck og Sophia Loren fara með aðalhlutverkin í þessari rómantísku spennumynd sem var á dagskrá Sjónvarpsins að kvöldi þrettánda dags jóla. Prófessor David Pollock (Peck) er sérfræðingur í arabísku myndletri og er fenginn til að leysa dulmálskóða sem gætu innihaldið uppplýsingar varðandi forsetisráðherra í Austurlöndum nær. Áður en Pollock veit af er hann flæktur inn í samsæri gegn fyrrgreindum forsætisráðherra. Hann kynnist Yasmin Azir (Loren) og saman tekst þeim að bjarga málunum. Myndin er að mörgu leyti fín og sagan í sjálfu sér ágæt. Myndatakan er nokkuð athyglisverð. Í fyrsta lagi er þó nokkuð oft myndað í gegnum spegla (t.d. spegla á bíl) og í einu atriði er myndað gegnum fiskabúr. Auk þess er myndatakan þegar búið er að dópa Pollock upp og hann skilinn eftir út á miðjum vegi nokkuð skemmtileg. Ofsjónirnar sem Pollock á að upplifa á sýru (eða einhverju álíka) eru túlkaðar t.d. með því að hafa allt í móðu og sýna allt tvöfalt. Auk þess bregður fyrir ýmsum furðulegum fyrirbærum til að auka áhrifin enn frekar og til að kóróna alla sýruna byrjar Pollock að syngja Gaudeamus igitur.