sunnudagur, 24. febrúar 2008

Harold & Kumar Go to White Castle (2004)


Myndin fjallar semsagt um tvo hasshausa sem verða svangir um miðja nótt og rúnta um New Jersey í leit að hamborgarabúllu. Harold er af kóreskum ættum og vinnur hjá fjárfestingarbanka en Kumar er læknakandídat af indverskum uppruna. Eftir að hafa séð auglýsingu í sjónvarpinu frá hamborgarastaðnum White Castle ákveða þeir að leita staðinn uppi. Það reynist þó þrautinni þyngra. Á leiðinni eru þeir félagar ögn skakkir og mæta ýmsum furðufuglum. Við fyrstu sýn virðist þetta vera venjuleg grinmynd og í raun frekar súr grinmynd. En þegar betur er að gáð kemur fram augljós ádeila í myndinni, ádeila á kynþáttafordóma og jafnframt ádeila á “Ameríska drauminn”. Erfiðleikum Harolds og Kumar við að finna White Castle má í raun líkja við þá erfiðleika sem margir innflytjendur stóðu frammi fyrir (og standa sumir enn) við komuna til Ameríku. Í myndinni koma fram ótal skýr dæmi um kynþáttafordóma sem viðgangast enn þann dag í dag í Bandaríkjunum. Þetta er því kannski einhvers konar allegóría. Mér fannst myndin eiginlega slá tvær flugur í einu höggi. Bráðskemmtileg gamanmynd sem endurspeglar Bandarískt þjóðfélag og deilir á það í leiðinni. Kom virkilega á óvart.

sunnudagur, 10. febrúar 2008

The Last Shot (2004)


Það tók mig þó nokkurn tíma að komast inni í myndina því ég vissi ekki fyrirfram um hvað hún væri. En myndin er semsagt um einhvern gæa í FBI sem bregður sér í hlutverk kvikmyndaframleiðanda til þess að geta handtekið einhvern mafíósa. Hann finnur óreyndan en áhugasaman leikstjóra og býður honum að leikstýra eigin mynd, en í raun og veru er það ekki ætlun FBI að myndin verði gerð. Þegar á líður heillast FBI gæinn hins vegar af kvikmyndagerðinni og vill láta gera myndina. Eftir dálítið ruglingslega byrjun virtist allt stefna í alveg sæmilega mynd á léttu nótunum. Það sem mér fannst hins vegar eyðileggja myndina algjörlega var endirinn. Þegar líður á seinni hluta myndarinar er maður alveg kominn inn í myndina og vill bara fá að njóta þess að sjá þessa kvikmynd þeirra kumpána verða til. En þá þarf endilega að snúa öllu á hvolf. FBI lætur hætta við myndina og svo kemur dálítið sérkennilegur endir, sem á að gerast tveimur árum síðar, þar sem leikstjórinn er búinn að gera aðra mynd um myndina sem hann fékk ekki að gera. Þessi endir fannst mér vera í litlu samræmi við það sem á undan var gengið. Hins vegar er þessi mynd byggð á sönnum atburðum þ.a. kannski “varð” hún að enda svona. Ég hefði samt viljað sjá hana enda öðru vísi.


Stundum hef ég það á tilfinningunni að myndir séu sagðar byggðar á sönnnum atburðum bara til þess að maður geti ekki gagnrýnt atburðarásina. Ég er alls ekki að segja að það sé raunin með þessa mynd og kannski er þetta mikill miskilningur hjá mér. Það eru samt svo ótrúlega margar myndir sem maður sér þar sem sérstaklega er tekið fram að þær séu byggðar á raunverulegum atburðum.