
Myndin fjallar semsagt um tvo hasshausa sem verða svangir um miðja nótt og rúnta um New Jersey í leit að hamborgarabúllu. Harold er af kóreskum ættum og vinnur hjá fjárfestingarbanka en Kumar er læknakandídat af indverskum uppruna. Eftir að hafa séð auglýsingu í sjónvarpinu frá hamborgarastaðnum White Castle ákveða þeir að leita staðinn uppi. Það reynist þó þrautinni þyngra. Á leiðinni eru þeir félagar ögn skakkir og mæta ýmsum furðufuglum. Við fyrstu sýn virðist þetta vera venjuleg grinmynd og í raun frekar súr grinmynd. En þegar betur er að gáð kemur fram augljós ádeila í myndinni, ádeila á kynþáttafordóma og jafnframt ádeila á “Ameríska drauminn”. Erfiðleikum Harolds og Kumar við að finna White Castle má í raun líkja við þá erfiðleika sem margir innflytjendur stóðu frammi fyrir (og standa sumir enn) við komuna til Ameríku. Í myndinni koma fram ótal skýr dæmi um kynþáttafordóma sem viðgangast enn þann dag í dag í Bandaríkjunum. Þetta er því kannski einhvers konar allegóría. Mér fannst myndin eiginlega slá tvær flugur í einu höggi. Bráðskemmtileg gamanmynd sem endurspeglar Bandarískt þjóðfélag og deilir á það í leiðinni. Kom virkilega á óvart.